Standandi leiðsögumenn í rútum á ferð = algjör glæpur

Ég veit um tvo leiðsögumenn sem heimta að fá að standa í rútunum og snúa að farþegunum á ferð og ég bara verð að segja að ef ég væri bílstjórinn þeirra myndi ég neita að keyra! Ekki einasta er þetta ólöglegt og getur verið hættulegt, þetta gerir það líka að verkum að leiðsögumaðurinn missir af því einstaka sem sést út um gluggann á hverjum tíma. Það er alveg sama hvað maður hefur farið oft einhverja tiltekna leið, það getur alltaf verið nýstárlegt í það og það skiptið eða eitthvað bæst við. Þið vitið hvað ég meina.

Að auki er þetta kjánalegt fyrir þá farþega sem sitja framarlega og finnst þeir kannski verða að fylgjast með lengur og betur en þá langar til. Mér finnst ósköp eðlilegt að fólk taki athyglishlé þótt ég sé að tala ... svo fremi að ég haldi sjálf athyglinni, téhéhé.

Umræddir leiðsögumenn eru samt með áralanga reynslu af starfinu og sinna því ugglaust vel á sinn hátt.


Veggjakrot er mengun

Ég er hins vegar óttalega ómeðvituð um hana.

Einn dag í síðustu viku gekk ég fram á konuna á neðri hæðinni þar sem hún var að sprauta yfir veggjakrot á húsinu sem ég bý í. Og ég hafði ekki tekið eftir krotinu.

Svei mér.

Nú er ég farin að opna augun betur og sé þetta úti um allt í miðbænum. Sumt er sossum snoturt en sumt er náttúrlega krass.

 


Verður ferðaþjónustan krónísk láglaunastétt?

Mér sýnist Edward H. Huijbens, forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands, spyrja þeirrar spurningar í Mogganum í dag. 

Ég óttast að svarið verði já, en spyr jafnframt: Hvað getum við gert til að koma í veg fyrir það?

Ferðamenn sem koma til landsins víla ekki fyrir sér, margir alltént, að borga mikið fyrir gæðavöru sem er einstök, náttúru, upplifun, frábæran mat - en eru ekki eins spenntir fyrir drykkjarföngum sem eru kannski flutt inn frá heimalöndum þeirra, lélegri gistingu og ónýtum rútum.

Það þarf að jafnvægisstilla.

 

Atvinnugreinin ferðaþjónusta

Edward H. Huijbens skrifar um ferðaþjónustu sem iðngrein

Edward H. Huijbens
Edward H. Huijbens
Edward H. Huijbens skrifar um ferðaþjónustu sem iðngrein: "Það er fagnaðarefni að nú fari ferðaþjónusta undir ráðuneyti iðnaðar og þá væntanlega ferðamála..."

 

MEÐ nýrri stjórn og þeim stjórnarsáttmála sem Samfylking og Sjálfstæðisflokkur gerðu í kjölfar nýliðinna kosninga verða málefni ferðaþjónustunnar flutt undir iðnaðarráðuneytið um næstu áramót. Áður höfðu málefni ferðaþjónustu á Íslandi heyrt undir samgönguráðuneytið. Það sem ég les út úr þessari breytingu er að nú loks er ferðaþjónustan viðurkennd sem tegund iðnaðar, atvinnugrein í sjálfu sér, en ekki aðeins "hliðaráhrif" bættra samgangna.

Af þessu tilefni er rétt að árétta að hve miklu leyti ferðaþjónusta (e. tourist industry) er í raun mikilsverður "iðnaður" þjónustuhagkerfisins hér á landi. Til þess er rétt að fara yfir nokkrar grunntölur. Gjaldeyristekjur af erlendu ferðafólki voru á síðasta ári 47 milljarðar sem er vel rúm tvöföldun á tíu ára tímabili, en 1997 voru þær um 21 milljarður. Gjaldeyristekjur sem þessar má leggja að jöfnu við útflutning og í því samhengi nema gjaldeyristekjur íslenskrar ferðaþjónustu 20% af heildar vöruútflutningi á Íslandi 2006 (fob-verð). Til samanburðar var ál flutt út að verðmæti 57 milljarðar króna árið 2006. Þess er rétt að geta að ég hef verðmæti þjónustuútflutnings, þ.ám. ferðaþjónustu, ekki inni í tölum um heildarvöruútflutning. Er það með ráðum gert til að sýna að þjónustugrein líkt og ferðaþjónusta er í raun "iðnaður" í hagkerfi þar sem um 75% starfa er í þjónustugreinum. Hins vegar ber að taka tekjutölum í ferðaþjónustu með varúð þar sem þær segja ekki allt. Bjarni Harðarson alþingismaður lýsti um daginn skoðunum sínum að ferðaþjónusta væri ekki af hinu góða og vísaði til reynslu foreldra sinna af Kanaríeyjum, þar sem einu birtingarmyndir ferðaþjónustu eru í lágt launuðum þjónustustörfum. Þannig má ekki fara hér og því verður að gæta þess að þær tekjur sem af greininni hljótast séu að standa undir blómlegu atvinnulífi, þar sem fólk getur skapað arð af hugmyndum sínum. Sjálfur hef ég bent á að ferðaþjónusta geti verið sú fátækragildra sem Bjarni lýsir, en það er aðeins ef ekki er rétt á málum haldið. Það er því fagnaðarefni að nú fari þessi málaflokkur undir ráðuneyti iðnaðar og þá væntanlega ferðamála, allavega er þá pólitískt rétt komið fyrir ferðaþjónustu.

Með pólitískri viðurkenningu greinarinnar er næst að gera gangskör í rannsóknum, til að tryggja að rétt verði á málum haldið með þessa atvinnugrein. Þær atvinnugreinar sem eitthvað að kveður á Íslandi hafa allar sér til fulltingis öflugar rannsóknarstofnanir. Sjávarútvegurinn hefur Hafrannsóknastofnun, Álið og orkan Orkustofnun, ÍSOR og öflugar rannsóknir Landsvirkjunar og ýmissa annarra. Landbúnaðurinn hefur RALA, nú Landbúnaðarháskólann. Iðnaður í landinu hefur Iðntæknistofnun og rannsóknarstofnun byggingariðnaðar. Ferðaþjónustan hefur hins vegar eina opinbera stofnun sem sinnir rannsóknum fyrir greinina, Ferðamálasetur Íslands. Þar eru 6 starfsmenn og opinber framlög nema um 10 milljónum króna. Ekki þarf að taka fram að með þennan mannafla, þó góður sé, og með þennan pening er lítið hægt að gera og ekki hægt að standa undir nauðsynlegum grundvallarrannsóknum á t.a.m. áhrif ferðaþjónustu á hagkerfi, menningu og umhverfi. Hver atvinnugrein þarf öflugt rannsóknarbakland og með pólitískri viðurkenningu ferðaþjónustu sem atvinnugreinar þarf nú að tryggja að hægt sé að standa að öflugum rannsóknum á greininni til að forðast t.d. örlög margra smáríkja með sól, sand og sjó.

Höfundur er forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands.


Bloggfærslur 13. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband