Sunnudagur, 3. júní 2007
Skemmtilegt orð, hagræðing
Ég man þegar tölvupósturinn komst í gagnið og ég man líka þegar ég lærði að hengja skjal við áður en ég sendi tölvupóst.
Það var hagræðing.
Ég græddi á henni þótt ég væri bara starfsmaður, t.d. kennari eða fulltrúi á skrifstofu. Vinnuálagið minnkaði, vinnutíminn styttist, frítíminn lengdist, kaupið lækkaði ekki. Þegar ég læri á endanum á þýðingaminni sparast tími við þýðingarnar, nákvæmnin eykst og ég rukka það sama á orðið.
Væri þá ekki eðlilegt að þeir sem læri hina nýju tækni njóti líka góðs af? Það að fólk hagræði í vinnubrögðum sínum nýtist eigendum/atvinnurekendum/verkkaupum. Hagræðing í sjávarútvegi virðist hins vegar bara koma fáum til góða. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur sé í alvörunni á móti tækni sem felur í sér vinnusparnað og aukin gæði, t.d. betri nýtingu hráefnis.
Ætti ekki bara vinnudagur Íslendinga að fara að styttast heilt yfir? Mér finnst það blasa við. Hagræðing hlýtur að þýða það að þeir sem leggja lóð sín á vogarskálarnar fái eitthvað af ávinningnum í sinn hlut, t.d. í lengri frítíma eða hærra kaupi.
Þannig heyrist manni það vera í bönkum. Ég hef heyrt að ekkert starf í banka borgi minna en 300.000 fyrir fulla vinnu.
Og ég hef alveg hvínandi áhyggjur af því að landsbyggðin leggist af og að hér verði bara borgríki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 3. júní 2007
Ég öfunda sjómenn
Sjómenn eiga sjómannadag, og af honum öfunda ég þá. Sá dagur er í dag.
Ég óttast hins vegar að hann nýtist ekki sem skyldi, að dagurinn sé að verða hvorki hátíðardagur né baráttudagur. Og af hverju er það? Er búið að taka allan slagkraft úr sjómönnum? Ræna þá allri náttúru? Allri baráttugleði?
Í Reykjavík er hátíð hafsins. Ég heppin, ætla að líta á furðufiskana á hafnarbakkanum á eftir. Ég var sjálf störfum hlaðin í gær sem leiðsögumaður.
Ég er náttúrlega ekki síður öfundsverð en sjómenn. Ég fæ borgað fyrir að gera það sem mér finnst skemmtilegt. Í gær var ég sérlega öfundsverð því að þá fór ég ásamt Inga ökuleiðsögumanni í sleðaferð á Langjökul með tvo farþega. Við brunuðum upp og niður brekkur, æfðum hallann og sneiddum hjá grjóthnullungum. Dúndrandi dekur og ekkert annað.
Jökull er takmörkuð auðlind og verður æ hverfulli. Maður þarf að keyra lengra til að komast í öruggan snjó. Þetta er kikk fyrir farþegana - og okkur hin. Jamm, maður er öfundsverður.
En mikið vildi ég að við hefðum okkar dag þar sem framlag ferðaþjónustunnar væri heiðrað, metið, rætt og endurskoðað. Vissulega er 21. febrúar alþjóðadagur leiðsögumanna og vissulega hefur Stefán Helgi Valsson bryddað upp á ýmsu með fulltingi Félags leiðsögumanna - en við þurfum að bera saman bækur okkar og kynna starfið betur. Af hverju er jökullinn t.d. blár sums staðar? Af hverju er himinninn blár?
Það verður spennandi að sjá hvort nýjum ráðherra ferðamála dettur eitthvað í hug.
Svo vona ég að sjómenn nái vopnum sínum á ný því að a.m.k. ég geri mér grein fyrir mikilvægi þeirra. Til hamingju með daginn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)