Ekki verður á hann Stefán Helga Valsson logið

Nú er hann búinn að taka viðtal við Svanhvíti Axelsdóttur hjá samgönguráðuneytinu og spyrja hana út í erindi okkar um löggildingu starfsheitisins leiðsögumaður ferðamanna. Vegna ráðherraskiptanna liggur beiðnin í salti og verður orðin saltstorkin áður en ferðamálin flytjast yfir til iðnaðarráðherra um næstu áramót. Á meðan halda erlendir fararstjórar áfram að koma hingað og leiða samlanda sína um landið okkar, misvitrir eins og við hin en þakklátir fyrir að fá aur fyrir áhugamálið.  

Ég talaði lengi við vinkonu mína í stéttinni í kvöld og hún hefur alloft lent í því upp á síðkastið að keyra með bílstjórum sem bera enga virðingu fyrir bílstjórastarfinu, tala í símann á ferð og senda sms. Af því að hún fer í lengri ferðir en ég hefur hún líka hitt fleiri bílstjóra sem eru útlenskir og tala hvorki íslensku né ensku. Útlenskir ferðamenn sem keyra hér um á bílaleigubílum kunna ekki að keyra í möl og lenda oftar en Íslendingar í vandræðum, útlenskir rútubílstjórar eru heldur ekki vanir malarvegum og þá er mikil hætta á ferð.

Vonandi verður þess laaaaaaaaaaangt að bíða að óvanir bílstjórar lendi í og/eða valdi slysum með aksturslagi sínu.

Þessi pilla á hvorki við um KjartanPétur Gauta.

Ég bara skil ekki hvað bílstjórar sætta sig við smánarlegt kaup. Hangir eitthvað á spýtunni, fá þeir borgaða óunna yfirvinnu, ókeypis flug til Kuala Lumpur einu sinni á öld eða finnst þeim það á við laun að hanga stundum klukkutímum saman meðan hópar eru í löngum göngum til fjalla eða sitja einhvers staðar að sumbli? Getur einhver útskýrt fyrir mér af hverju góðir bílstjórar - því að ég þekki þá marga - tolla í áhættusamri vinnu fyrir 900 kr. á tímann?

Og Magnús Oddsson sagði fyrir viku að á næsta hálfa mánuði tæki ferðaþjónustan inn fjóra milljarða í veltu sína. Ekki verða bílstjórarnir feitir af því.


Söfn og ferðamenn

Í gær stóð ég frammi fyrir því sem margir leiðsögumenn þekkja, ég átti að agitera fyrir safni hvers aðgangseyrir var ekki innifalinn í verði ferðarinnar. Þar sem ferðin var tiltölulega stöðluð, þótt mér væri þar att á foraðið í fyrsta sinn fyrir þetta fyrirtæki, spurði ég bílstjórann minn, gæðamanninn Gumma, hvort það hefði tíðkast í sumar að fara inn á safnið. Hann sagði að það hefði ekki verið gert, ekki einu sinni keyrt að safninu, Skógasafni.

Ég tók því þann pólinn í hæðina að láta það ógert að reyna að selja 21 ólíkum einstaklingi byggðasafnið að Skógum fyrir 750 kr. á mann. Ég var auðvitað búin að tala við flesta í hópnum um heima og geima í stoppunum á tveimur dögum og fólk kvartar mikið yfir verðinu, helst á matvælum. Ég fór því auðveldu leiðina, stoppaði við Skógafoss, dvaldi lengi við fjöruna í Vík, drollaði í Dyrhólaey og fór upp að Sólheimajökli í staðinn fyrir að taka áhættuna á að þrír vildu fara inn - eða þrír vildu ekki fara inn.

Ég man vel eftir fyrstu skiptunum í Skógasafni meðan það var hrátt og fullt af Þórði Tómassyni. Það var mikil upplifun. Ég þekki Martinu sem er að vinna þar núna og kann vel við hana - en Skógasafnið er bara ekki þetta möst sem það var. Finnst mér.

Ég trúi ekki öðru en að margir leiðsögumenn hafi upplifað þessar þrengingar mínar vegna hinna ýmsu safna. Útlendingar sem eru búnir að eyða heilmiklu sparifé í sumarfrí á Íslandi eru komnir hingað til að sjá náttúruna, upplifa auðnina, mannfæðina - jökla, skógleysi, mögulegt eldgos, hrífandi fjallasýn, svarta fjöruna.

Ég er svolítið stúrin yfir úrræðaleysi mínu en ég get þó sagt það að miðað við hvernig Suðurströndin er skipulögð fer maður ekki í Skógasafn í dagsferð frá Reykjavík nema sleppa ýmsu öðru í staðinn. Við áttum að koma í bæinn kl. sjö en komum upp úr átta enda var veðrið til þess fallið að tefja för.

Væri ekki ráð að rukka ekki aðgangseyri á einstökum söfnum, heldur fela þennan 500-kall í einhverju gjaldi við komuna til landsins? Eða hafa seljanlega vöru á boðstólum sem minnir fólk á upplifunina í söfnunum? Friðrik Brekkan var með forvitnilegar hugmyndir í þessa veru í fyrirlestri sem ég hlustaði á hann flytja fyrir tveimur árum eða svo. Ég held að missir safna í aðgangseyri verði í raun mjög lítill og að þau muni miklu frekar ná að koma sér á kortið með því að selja ekki inn (kannski út ...). Það mun alltaf reynast okkur mörgum erfitt að selja öllum í hópnum hugmynd að safni - og þá þarf að finna eitthvað fyrir hina að gera.

Sammála?


Bloggfærslur 19. júlí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband