Miðvikudagur, 25. júlí 2007
Ferðamálamógúll á morgunvakt RÚV 23. júlí
Ég pikkaði þetta viðtal við Kjartan Lárusson upp af síðu Félags leiðsögumanna. Kjartan hefur marga fjöruna sopið og þekkir tímana tvenna í bransanum. Honum finnst eins og fleirum löngu tímabært að marka skýra stefnu í ferðamálum. Nú eru ferðamenn að verða sjálfstæðari í ferðalögum sínum, láta ekki tildra sér upp í rútu lengur og keyra með sig hringinn, nú leigja margir bílaleigubíla og fara leiðir kattarins. En ég get ekki betur heyrt en að Kjartani finnist sem ferðaþjónustan sé að taka við - og eigi að gera það - af sjávarútveginum og verða þannig annar mesti atvinnuvegur landsins á eftir fjármálaþjónustu. Er ég kannski farin að lesa meira í viðtalið en Kjartan gefur mér tilefni til?
Svo er annar Kjartan sem veifar og veifar gulrót framan í ferðamálayfirvöld, Gullhring deluxe. Það er frábær hugmynd og einkum og sér í lagi leggst vel í mig að nýta Hvalfjörðinn.
Svo skil ég ekki hvers vegna sumir túrar byrja ekki seinni part dags, jafnvel svo seint sem kl. 15. Það er hreint dásamlegt að standa við Geysi kl. 19 eða vera innst í Hvalfirðinum undir miðnætti á bjartasta tíma árs. Væri ekki upplagt að nota tíma Bandaríkjamanna og láta ferðirnar byrja á tíma sem hentar klukkunni þeirra? Þá held ég að næðist betri nýting á bjartasta tíma. Það kallaði vitaskuld á hagræðingu, eins og að bera fram morgunverð á sama tíma og hádegisverð á sumum hótelum. Er það kannski ekki hægt, ha?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 25. júlí 2007
Erindisrekstur dagsins
Lásinn á hjólinu mínu dugði ekki lengi, hann hrökk í sundur og í dag lá leið mín í búðina þar sem ég keypti hann 10. maí sl. Ég rétti hann fram og spurði ísmeygilega: Heldurðu ekki að það geti verið að þessi lás eigi að duga lengur en í tvo mánuði?
Afgreiðslumaðurinn brást hinn besti við, fór með lásinn afsíðis og sannreyndi ónýtileika hans. Þar sem þessi tegund var ekki til bauð hann mér að velja mér dýrari lás. Ég átti það skilið en samt gladdi mig að fá svona lipurlega afgreiðslu.
Fyrir tæpum tveimur árum var mér gefin ógurlega vönduð merano-ullarpeysa sem ég hef nú brúkað ótæpilega. Ég veit ekki hvort það er almennt mikil fýla af mér en þrátt fyrir endalausan þvott í höndunum var um daginn komin svo megn svitalykt í krikana að ég ákvað að flíkin væri mér svo gott sem ónýt þannig að ég gæti prófað að skella henni í vél þótt það sé annars bannað. Ég hélt að hún hlypi kannski spölkorn og þófnaði. En nei, það gerðist ekki, hins vegar eru fjölmörg lítil göt á bakinu eftir þvottinn. Nú veit ég varla hvort ég á að taka málið frekar upp við Matta sem á bæði þvottavélina og íbúðina (gæti þetta verið mölur ... humm hömm .. eða silfurskottur?) eða fara til fundar við Marc O'Polo.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 25. júlí 2007
Nú þykja mér nautin rekin (í ferðaþjónustunni)
Auðvitað veit ég að hingað kemur fjöldi útlenskra fararstjóra með hópunum og tekur að sér leiðsögn um landið. Ég veit um bílstjóra sem hafa verið eins og útspýtt hundsskinn við að vinna vinnuna fyrir fararstjórana vegna þess að þeir (bílstjórarnir) tala ensku og eru reyndir í starfi. Sumir erlendu fararstjórarnir verða síðan svekktir þegar þeir lenda ári síðar með bílstjóra sem talar kannski ekki eins góða ensku og getur ekki greitt götu þeirra.
En mig grunaði ekki að þetta væri eins mikið og Stefán sagði í viðtalinu við RÚV í gær, og ég vissi ekki heldur að fararstjórunum væri sagt að segjast vera akandi gestir. Reyndar botna ég ekki almennilega í þessu með meira- og/eða rútuprófið, ég hélt að menn þyrftu svoleiðis til að keyra vissa stærð af ökutækjum.
Skyldu Erna Hauks og Magnús Odds vita af þessu?
Var ekki svo einmitt frétt í dag um aukinn fjölda útlendinga sem er farinn að keyra of hratt og fara illa á mölinni. Hmm, gæti verið samhengi í þessu?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)