Í ótíðinni las ég bók

Ég er (fyrrverandi) bókabéus en mér hefur lítið orðið úr lestri það sem af er þessu ári. Nú hef ég þó náð að lesa Sendiherrann eftir Braga Ólafsson.

Ég hef sérstakt dálæti á skáldsagnahöfundinum Braga en kann síður að meta ljóðin hans. Þó er hann meiri stemningsmaður en maður mikillar og skýrrar framvindu í söguþræði. Hér kynnumst við Sturlu sem er ljóðskáld og húsvörður. Flestar persónur Braga hafa verið þvílíkir öndvegislúserar í gegnum þykkt og þunnt að það verður að hrósa Braga fyrir að gera persónurnar samt áhugaverðar. Sturla er hins vegar ekki tiltakanlega misheppnaður, þvert á móti hefur honum tekist að koma fimm börnum til manns ásamt því að slá lauslega í gegn í bókmenntaheiminum. Og það var lengst af spennandi að fylgjast með honum missa af ljóðahátíðinni í Litháen.

Ágæt sumarlesning.

Hitt undrar mig að framan af talar Sturla (eða höfundur) um litháensku og skiptir svo yfir í litháísku. Vissulega smáatriði en samt ónákvæmni sem yfirlesari ætti að koma auga á. Og svo sá ég á stöku stað glitta í ensku þótt bókin sé áreiðanlega ekki þýdd!

-skrifaði Berglind um kvöldmatarleytið í stað þess að vera á leiðinni til hinna fyrirheitnu Vestmannaeyja


Bloggfærslur 3. ágúst 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband