Miðvikudagur, 12. september 2007
Fura, Grelöð, Arngnýr, Brák
Mannanafnanefnd blessaði ýmis nöfn nýlega og um þau var fjallað í vikunni. Í tilefni af því að stórvinkona mín, Sólveig Ólafsdóttir, á afmæli á þessum drottins dýrðar rigningardegi ætla ég að rifja upp hvað hún ætlaði að skíra börnin sín ef hún eignaðist þau. Strákurinn átti að heita Arngnýr af því að það var svo flott á prenti og stelpa annað hvort Grelöð (sú sem ber fræ) eða Brák (fóstra Egils). Fleiri nöfn flugu fyrir og er mér alltaf minnisstæðast þegar hún sagði pabba sínum að hún vildi skíra stúlku í höfuðið á honum. Hún ætti þá að heita Fura.
Og þá rifjast upp líka þegar Erla, önnur stórvikona, sagði í vinnunni sinni að dóttir hennar hefði verið skírð Halldóra Þöll og ein samstarfskonan rak upp ramakvein og sagði: Skírðirðu barnið TRÖLL?
Eldri dóttir Erlu kom heim úr leikskólanum einn daginn með öndina í hálsinum og sagði: Veistu, mamma, það er kominn nýr strákur í leikskólann og hann heitir BJARNI. - Hún var sko ekki lítið hneyksluð.
En nú er mannanafnanefnd búin að leyfa karlmannsnafnið Álfar. Er það fleirtala eða Ál-far?
Til hamingju með þennan merkisdag, Sólveig.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 12. september 2007
Íbúð óskast
Kröfur eru hóflegar. Hún skal vera 90-120 fm, á svæðum 101 eða 105, með sólarsvölum (eða verönd) og gjarnan viðhaldsfrí. Fallegt eldhús með t.d. frístandandi eyju skaðar ekki og gott væri ef baðherbergið væri sjálfhreinsandi. Útsýni kemur í mesta lagi í 10. sæti þannig að hæð neðarlega í húsi er hreint ekki fráhrindandi tilhugsun.
Ég vil kaupa. Annars nenni ég bráðum ekki lengur að hokra á skerinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)