Mánudagur, 17. september 2007
Ég minnist ára minna í Ingólfsstrætinu með trega
Það er naumast að það hefur orðið vitundarvakning. Ég mætti á borgarafund í Ráðhúsinu og þar hélt hver frummælandinn af öðrum fyrirtakserindi um hvað þarf að bæta í miðborginni, og hvað hægt er að bæta með góðu móti. Ég átti dásemdarár í Ingólfsstrætinu forðum daga en svo spruttu upp skemmtistaðir með leka hljóðveggi og ég hrökklaðist að heiman. Sá tími rifjaðist kirfilega upp fyrir mér á fundinum áðan og árið sem ég gekk milli Pontíusar og Pílatusar að leita úrbóta. Aumingja fólkið sem ég þekkti þá, ég talaði stanslaust í á að giska ár um helvítið sem mér fannst ég búa við. Og þökk sé fólkinu með stáltaugarnar sem hélt tryggð við mig. Úff, ég sé núna úr fjarlægð enn betur hvað þetta var ömurlegt fyrir mig og alla hina líka.
Góðu fréttirnar eru þær að borgarstjóri, lögreglustjóri, íbúar miðborgar og doktorsnemi í skipulagsfræðum eru öll sammála um að nú sé tímabært að snúa þróuninni við. Að öðrum ólöstuðum fannst mér mest gaman að hlusta á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrum fréttamann hjá RÚV og verðandi borgarskipulagsfræðing, þótt hann hafi syndgað feitast upp á náðina. Hann sýndi evrópskar miðborgir með kostum og göllum og það leyndi sér ekki að smekkfullur Tjarnarsalurinn var alfarið á móti einsleitum kumböldum sem þjóna gróða fárra. Það var orðað aðeins öðruvísi.
Við hlógum oft því að erindin voru líka fyndin. Vonandi markar þetta upphafið að bættum miðbæ eins og borgarstjóri lofar. Ég á eftir að una mér enn betur í 101 til framtíðar litið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)