Þriðjudagur, 15. janúar 2008
Sögur af fasteignasölum
Ein fasteignasala segir að síminn hringi varla og að allt hafi verið með afar kyrrum kjörum frá því í haust. Önnur segir að það sé búið að vera mjög líflegt frá áramótum.
Geta báðar sagt satt?
Myndir selja. Myndir hrinda frá. Ef eldhús væri yfirgripsljótt að mínu mati myndi ég ekki hafa fyrir því að fara að skoða því að ekki nenni ég að byrja á breytingum af því tagi. Fasteignasalan sem er mjög borubrött segir að það verði að vera mynd úr svefnherberginu því að annars haldi allir að eitthvað sé að því. Hey, í svefnherberginu geta verið fastir skápar sem er gott að vita um, að öðru leyti hef ég engan áhuga á að sjá rúmbúnað ókunnugs fólks.
Ætli það sé rétt hjá þeirri fasteignasölu að fólk heimti myndir úr svefnherbergjum fólks?
Ég gái að stað, stærð og verði, eftir það einstökum vistarverum. Hins vegar hafa ýmsir gaman af að skoða myndir til þess að skoða myndir. Er það fólkið sem heimtar myndir úr svefnherbergjum?
Og hvað skyldu óháðir aðilar segja um fasteignamarkaðinn; upp, niður eða beint áfram? Allir sem blöðin spyrja eru háðir - bankar, fasteignasalar eða kannski fjárfestar. Hversu mikið er að marka Fasteignamat ríkisins sem er þó sannarlega ekki háð? Hvað kostar fermetrinn í 101?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)