Föstudagur, 4. janúar 2008
Hvað eiga topppunktur og stássstofa sameiginlegt?
Öndvegisfrændi minn sem alinn er upp á Selfossi heldur þessi misserin til erlendis þar sem hann þóttist ætla að skrifa Flórdæla sögu (meðfram sálfræðinámi sínu). Ekki ætlar hún að verða burðug þar sem hann hefur ekki skrifað í hana nýjan kafla í bráðum fimm mánuði.
Þegar hann var í jólaheimsókn sinni hittumst við og að vanda tókum við upp mikið og giftusamlegt hjal um tungumálið. Við reyndum að þýða búðarheitið fat face með öðru en feitafés, t.d. búldubolla - eða nei, líklega fundum við ekkert orð fyrir andlit sem byrjaði á b, við hefðum bara svo gjarnan viljað detta niður á góða stuðla. Svo sagðist hann langa að finna fleiri orð eins og topppunkt (úr stærðfræði) en héldi að aðeins eitt orð annað uppfyllti það.
Nú er ég komin á blaðsíðu 101 í stórfróðlegri bók um samsveitung Gumma Torfa og þar kemur við sögu stássstofa - sem uppfyllir leit Gumma.
Geta nú t.d. Ásinn, Laufið, Stína og Habbs rifjað upp fyrir mig fleiri (samsett) orð þar sem sami stafurinn kemur fyrir þrisvar í röð?
Og má kannski biðja um að veðrinu fari að slota svo að hríslurnar stækki ekki það mikið að þær nái að dangla í rúður á þriðju hæð? Ha, er ekki hægt að fara að fá svefnfrið fyrir allt-um-kring-garranum?