Um mengun af ferðaþjónustu

Mér var bent á 17 ára gamla ræðu þáverandi umhverfisráðherra sem sagði:

Mig langar bara til þess að minna á að umhverfismálastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur beint þeim tilmælum til allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna að draga úr ferðamannaþjónustu og minnka straum ferðamanna til aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna vegna þess að ferðamannaþjónusta er einhver mest mengandi atvinnugrein sem fyrirfinnst á jörðinni. Ferðamannaþjónusta, t.d. eins og hún er er rekin á Spáni, hefur valdið meiri umhverfisspjöllum á Spáni heldur en öll álver í Evrópu samanlagt. Ferðamannaiðnaður og ferðamannaþjónusta t.d. í Miðjarðarhafslöndunum hefur valdið svo rosalegum umhverfisspjöllum að það er núna yfirlýst stefna umhverfismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna að beina þeim tilmælum eindregið til allra aðildarríkja: Dragið úr ferðamannaþjónustu, reynið að minnka straum ferðamanna til landanna til þess að koma í veg fyrir þau umhverfisspjöll sem ferðamenn valda.

Sannlega sannlega segi ég .. að þetta þyrfti Birna G. Bjarnleifsdóttir að rifja upp. Alveg áreiðanlega las hún þetta og lagði út af þegar ræðan var flutt 18. mars 1991, einkum orðinu ferðamannaiðnaði sem gefur sterklega til kynna að ferðamenn séu fyrirbæri á færibandi, eins og hver önnur kókdolla, vara sem ekki þarf að gefa sérstakan gaum eða sinna sem einstaklingum.

Svo hef ég fyrir satt að umhverfismálastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi bara aldrei mælst til þess arna. Það væri alveg einstaklega heimskulegt, fólk var þá, er núna og verður áfram á faraldsfæti. Þetta er meðal lífsgæða fólks - að fara að heiman í lengri eða skemmri tíma, upplifa nýja hluti, stækka heiminn, bæði í eigin landi og öðrum. Og hvort sem fólk er heima eða að heiman þarf það að nærast og hreyfa sig, fótumtroða jörðina og slíta henni einhvers staðar. Það þýðir ekki að snúa sér undan og vona að vandamálið hverfi, miklu nær er að standa uppréttur, fagna áskoruninni og finna viðunandi lausn fyrir verkefnið.

Þrátt fyrir auðheyrðan titring yfir ráðningu nýs ferðamálastjóra bind ég miklar vonir við framtíðina, að mörkuð verði stefna í ferðaþjónustu, vegir bættir, gistipláss um allt land aukið, afþreyingarmöguleikum bætt við - og eftir frétt af nýársdagsraunum fullorðinna erlendra ferðamanna í spreng óska ég þess heitt að þeim líkamlegu þörfum fólks verði hægt að mæta framvegis, líka á helgidögum. Lifi björgunarsveitin sem aumkaði sig yfir fólkið! Auðvitað er ekki háleitt að fjalla um klósettþarfir fólks en skv. þarfapíramída Maslows nýtur fólk ekki æðri gæða ef grunnþörfum er ekki sinnt. Og tilkomumikill Seljalandsfoss í ljósaskiptunum getur átt sig ef þvagblaðran er farin að þrengja að augunum.

Seljalandsfoss


Bloggfærslur 7. janúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband