Að biðjast eða biðjast ekki afsökunar

Alveg er mér slétt sama hvort Hreiðar eða annar peningabúbbi biður mig afsökunar eða ekki. Ég vil bara að hann skili ofteknu fé. Og ekki til mín, heldur þeirra sem hann hirti það af. Og það sama á við um alla hina.

Hvað varð um 500 milljarða lánið sem Kaupþing fékk í október 2008? Af hverju sagði HMS að ekkert af því láni félli á okkur? Hvað á hann sjálfur mikið eftir af ofurlaunum, kaupréttum, bónusum og kúlum? Hvernig væri að hann skilaði því til þeirra sem öfluðu þess fjár?

Ég hætti í viðskiptum við Búnaðarbankann skömmu eftir að HMS og SE byrjuðu með kaupaukana sína. Þótt þeir væru reknir með þá til baka í eitt skipti var það bara skammgóður vermir. Árið eftir nennti enginn lengur að ybba gogg, bara nokkrir nytsamir sakleysingjar hættu í viðskiptum við bankann. Ég var ekki átthagabundin með íbúðarlán og gat gefið þeim langa nefið sem ég hef séð í öðrum bloggfærslum í kvöld.

En ég þori að hengja mig í hæsta gálga upp á það að allmargar fullorðnar konur hafa hrifist af einbeitninni sem skein úr augunum. Hann er svo laglegur.

Sigmar var ágætur. Hvernig talar maður við sjálfumglaðan vegg sem varpar öllum spurningum til baka með yfirlýsingum um eigið ágæti?


Peningar eru ekki verðmæti

Peningar eru ávísun á verðmæti, s.s. góðan mat, falleg föt, ljót föt, hraðskreiða bíla, glæstar þyrlur, einkaþjálfara, megrunartöflur, gleðitöflur, ótakmarkaðar lendur - og t.d. fiskveiðikvóta.

Hvenær mun það ljós renna upp fyrir fjármálagúbbunum og meintum kvótaeigendum að illa fengið handbært fé ávinnur þeim ekki sálarró, eilíft líf og óskoraða aðdáun hinnar vinnandi handar? Menn þurfa að vera a.m.k. dálítið siðlausir til að líða vel með það að hagnast stórkostlega á vinnu og/eða óförum annarra og ég held að menn þurfi að vera öllu siðlausari til að snúa alls ekki af villu síns vegar.

Meðan peningum er ekki til að dreifa eru þeir nauðsyn, eftir það eru þeir ofmetnir. Til hvers þarf nokkur maður mörg hundruð sinnum meira en hann þarf?


Bloggfærslur 19. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband