Fórnarkostnaður

Stundum þarf maður að vera vondur til að vera góður, segja t.d. nei við barn þótt það langi til að maður segi já. Þetta vita allir.

Maður getur þurft að klúðra bakstri og eldamennsku nokkrum sinnum áður en maður nær fullkomnun en eftir það sér maður ekki eftir nokkrum klúðurstundum, brunnum gráðaosti og mygluðum tómötum. Gott væri samt að eiga svín sem tekur við öllu á þeim stundum.

Stundum þarf líka að eyða peningum til að afla peninga. Það á t.d. við þegar fyrirtæki er stofnað, þá þarf maður að eiga startfé og leggja út í kostnað áður en tekjurnar skila sér.

Núna þurfti samninganefnd að sitja með Bretum og Hollendingum á löngum og ströngum fundum til að knýja fram niðurstöðu sem mér heyrist frá hægri og vinstri vera góð og jaðra við hamingjustund, tvær fyrir eina ... Ekkert var hún útlátalaus, trúi ég. En allra peninganna virði, heyrist mér af fréttum.

Duga ekki þessi rök líka á stjórnlagaþingið? Lýðræðið kostar. Kannski fáum við fullkomna stjórnarskrá sem allir verða lukkulegir með. Peningalegur fórnarkostnaður er varla skotsilfur í vösum helstu glæpamanna úr bönkunum. Má ekki senda reikninginn til Tortólu?


Bloggfærslur 9. desember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband