Sunnudagur, 7. febrúar 2010
119.000 manna höfuðborg + sex nágrannasveitarfélög
Ef ég ætti eina ósk fyndist mér freistandi að spandera henni í að öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sameinuðust. Þá væri kannski hægt að skipuleggja heildrænt. Ég tel sjö sveitarfélög, í landfræðilegri röð (eins og hægt er) þessi og íbúafjöldi fyrir aftan:
Seltjarnarnes: 4.393
Reykjavík: 119.021 (273 ferkílómetrar)
Mosfellsbær: 8.463
Kópavogur: 30.395
Garðabær: 10.503
Hafnarfjörður: 26.109
Álftanes: 2.519
Samtals: 201.403
Í Árósum búa 240.000 (91 ferkílómetri) (reyndar segja sumar heimildir að fjöldinn sé kominn yfir 300.000) og í New York 8,3 milljónir (800 ferkílómetrar). Vísindavefur HÍ var beðinn um samanburð á Reykjavík og New York árið 2005 og ég spyr (mig): Hvað hindrar höfuðborgarbúa í að sameinast í stjórnsýslunni? Við losum 200.000 manns. Og ég veit svarið: Sjö smákóngar af báðum kynjum.
Ég veit ekki hvort ég myndi í alvörunni splæsa dýrmætri ósk í eitthvað sem á ekki að þurfa yfirnáttúrulega hjálp í að gera en ég óska þess í alvörunni heitt að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sameinist. Svo mætti t.d. Grafarvogurinn vera með hverfisstjóra, sem og t.d. Hafnarfjarðarumdæmi og Mosfellsbær.
Það eru engin málefnaleg rök gegn þessu.
Það væri auðveldara að skipuleggja íbúðauppbyggingu, heilsugæslu, vatnsból, hesthúsabyggð, almenningssamgöngur, umferðaræðar, atvinnumál - og flugvöllinn burt.
Grrrr.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)