Hreinsun náði mér á endanum

Í kringum Norðurlandaráðsþingið hér í nóvember var heilmikil umræða um Sofi Oksanen. Auðvitað þurfti ekki heilt þing til en hún fékk verðlaun þess ráðs fyrir bók sína, Hreinsun.

Ég eignaðist bókina þá strax og heyrði heilmikið um hana, fannst hún of þykk til að voga mér að lesa hana með öðrum lestrarönnum og byrjaði á henni á jólunum. Eftir fyrstu 30 blaðsíðurnar leiddist mér óhemju, eftir 80 blaðsíður var ég alveg að gefast upp. En þá kom nýtt tímabil, ekki lengur Vestur-Eistland 1992 heldur fyrirstríðsárin og síðan var heilmikið flakkað í tíma. Fólk skýrðist, athafnir þess skildust, dagbókarfærslur bóndans smátt og smátt - og þess hryllilega raunalega og vel skrifaða saga vatt upp á sig sem bandhnykill væri.

Ég man ekki eftir að hafa kúvenst svona í skoðun á bók en þegar ég var búin með hana í vikunni byrjaði ég strax á henni aftur. Nú skil ég flugurnar og Aliide, Zöru og flóttann.

Það breytir því ekki að mér finnst hún dálítið stirðbusaleg í gang, um það hef ég sannfærst þegar ég les byrjunina aftur. Mér fannst það að nota orðið vöndul fyrir fullvaxna manneskju truflandi og finnst það enn. Mér finnst enn einstaka vondar málsgreinar en er nú opin fyrir fallegum líka:

Loks tókst henni að reisa sig upp og standa í fæturna en leit enn ekki framan í Aliide heldur þreifaði á hári sínu og strauk það yfir andlitið þó að það væri blautt og klístrað, breiddi hárið fyrir andlitið eins og druslulegar gardínur á eyðibýli þar sem ekki er lengur neitt líf sem þarf að draga fyrir (bls. 16).


Bloggfærslur 15. janúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband