Sunnudagur, 23. janúar 2011
Persónurnar í Íslandsklukkunni
Í Lostafulla listræningjanum var í gær fjallað um Rokland, mynd sem var gerð eftir samnefndri bók Hallgríms Helgasonar. Ég hef heyrt menn ergja sig á því að hún sé ekki nógu lík bókinni, að maður þurfi að hafa lesið bókina til að skilja söguþráðinn, og í þættinum í gær heyrði ég að það var algjör tilviljun að Ólafi Darra var kastað í hlutverk Bödda. Forvitnilegt.
Kannski er það vandi, varla samt, að margir beri ósjálfrátt saman þegar handrit myndar byggir á bók. Það segir sig eiginlega sjálft að maður hlýtur að gera það. Og leikstjórinn heyrist mér pirraður yfir því. Að minnsta kosti annar listræninginn í gær hafði ekki lesið bókina og fannst myndin alveg frábær. Ég er ekki búin að sjá Rokland, mun pottþétt sjá hana en kannski ekki í bíó. Ég var svo hrifin af bókinni að ég keypti hana til afmælisgjafa eftir að ég las hana sjálf. Það er búið að búa mig undir að ég verði ekki hrifin af myndinni.
-Hvenær er persónusköpun góð og hvenær er persónusköpun ekki góð?
Ég ætlaði að velta fyrir mér meðferð persóna í leikgerð. Ég hef bara lesið Íslandsklukkuna í trílógíunni Íslandsklukkan, Hið ljósa man og Eldur í Kaupinhafn. Óskiljanlegt. Og það fyrir löngu. Ég fór samt á leiksýninguna í gærkvöldi. Benedikt Erlingsson, leikstjórinn, lék Árna Árnason, glæsimennið, en í leikskrá sé ég að Björn Hlynur Haraldsson er munstraður í það. Brynhildur Guðjónsdóttir var Jón Grindvíkingur en á myndum í leikskrá er alls staðar Ilmur Kristjánsdóttir. Ingvar E. Sigurðsson var Jón minn kæri glæpamaður Hreggviðsson sem hljóp yfir hið mjúka Holland (í sýningunni blauta, ég skil ekki hvar eitthvað hefur farið úrskeiðis). Lilja Nótt Þórarinsdóttir fetaði í fótspor Herdísar Þorvaldsdóttur frá 1950 (sem nú var hin *mig skortir nógu háfleygt lýsingarorð* mamma Jóns Hreggviðssonar og gekk alla leið af Akranesi og austur í Skálholt) og Tinnu Gunnlaugsdóttur og lék hið ljósa man. Þar finn ég helst að bókarlesturinn læðist aftan að mér. -Vinur, hví dregurðu mig í þetta skelfilega hús? -Heldur þann versta en þann næstbesta.- Við lestur Íslandsklukkunnar hríslast um mig þegar þessi orð birtast, og það jafnt þótt Snæfríður sé bara 17 ára þegar setningarnar byrja að falla. Hins vegar hló Snæfríður oft í gær og teiknaði sig sem mikinn húmorista og ég kunni því vel. Þegar henni snerist (enn) hugur varðandi Arnas og hún dró niður landakortið á táknrænan hátt var í henni leikur. Háðið varð aðeins veikara þegar hún híaði á vonbiðil sinn, dómkirkjuprestinn, og allar hans krókóttu spurningar, og þunginn í stóru setningunum varð fullléttur, vissulega, en ég kunni vel við þessa gáskafullu Snæfríði að mestu leyti.
Jón Regviðsen, maður minn, hvað Ingvar náði mér og hélt allan tímann. Jón stal snæri, ja svei, en drap hann böðul kóngsins? Hann vildi að hann hefði gert það en hann hafði sínar efasemdir. Á misjöfnu þrífast börnin best, og líka Jón Hreggviðsson. Hann var húðstrýktur, eins og vera ber þegar svo ótíndir glæpamenn eiga í hlut, honum var sleppt eftir að móðir hans fjörgömul hafði þumlungast á fæti yfir hálft landið til sinnar jómfrúr til að biðja syni sínum griða. Jómfrúin gat ekki verið búin að gleyma þegar hún kom á Rein og fylgdarmaðurinn fann mörg blöð úr Skáldu?
Jón sleppur, Jón hleypur, Jón gránar - og svo fær Jón að yrkja jörðina í næsta nágrenni við yfirvaldið í hartnær 20 ár. En þrátt fyrir skipafæð og dagblaðaleysi hverfur fortíðin ekki. Jón er ekki í höfn.
Dómkirkjupresturinn komst hins vegar í sína höfn. Myndarmaðurinn Jón Páll Eyjólfsson var svo svaðalega ófrýnilegur sem dómkirkjupresturinn að hver maður hlýtur að skilja vel að Snæfríður fúlsar við honum vel og lengi. Svo hefur hún á endanum ekki allt val í heiminum ...
Tvö hlé og alltof stutt sýning. Niðurlæging þjóðar, leit að skinnhandritum, sál og líkami selt ríkri danski konu með munninn framan á maganum til að Ísland megi hefjast úr eymdinni. Ósamstæðar ástir, skömm í lögmannsfjölskyldu, glaumur á Þingvöllum, flótti. Flótti frá volæðinu, flótti frá hamingjunni, samt ekki flótti frá átökum því að af þeim var nóg.
Ekki vil ég varpa neinni rýrð á sýninguna en efniviðurinn er í bók Halldórs Laxness og það er hann sem hrífur mig. Sýningin skemmdi samt ekkert fyrir mér. Og þá er að halda áfram að lesa minn meistara ...
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)