Mánudagur, 17. október 2011
Að vinna eða ekki að vinna og verða til gagns
Mér finnst afar fráhrindandi tilhugsun að vera atvinnulaus, öllu heldur kannski aðgerðalaus. Kannski gæti ég hugsað mér að vera í skóla alla ævi og læra alltaf eitthvað nýtt og nýtt; til kokks, viðskiptafræði, köfun, útvegsfræði, hönnun, til ráðherra, mannauðsstjórnun - eiginlega hvað sem er annað en blómaskreytingar, förðun og súludans. En mér þætti samt óþægilegt að vera ekki í vinnu og afla ekki eigin tekna.
Um helgina áttum við unglingurinn spjall um atvinnumál. Hann byrjaði í menntaskóla í haust og ég spurði hann hvort hann héldi að hann vildi frekar afla 400.000 kr. eftir 10 ár með vinnu eða sem atvinnulaus. Í spurningunni gaf ég mér að það væri hlaupið að því að lifa af hvort sem maður væri á vinnulaunum eða atvinnuleysislaunum.
Unglingur: Þetta er góð spurning sem ég er einmitt mikið búinn að velta fyrir mér.
Ég: Jaaaá? [Ég veit nefnilega ekki hvaðan spurningin kom í kollinn á mér.]
Unglingur: Ég geri ráð fyrir að læra lögfræði af því að það er hægt að fá góða og vel launaða vinnu sem lögfræðingur en ég hefði mestan áhuga á að læra eðlisfræði. Ef ég verð eðlisfræðingur er ég hins vegar að dæma mig til að vera í einhverri skonsu í háskólanum með lélegt kaup.
Ég:
Unglingur: En ég held að flestir vilji bara fá kaup og sleppa því að vinna.
Ég: Neeei ...
-Þetta er skynjun hans á umhverfinu. Ég er enn ekki sannfærð um að fólk almennt vilji ekki vera í vinnu. Fólk vill hins vegar auðvitað ekki vinna hvað sem er, maður vill vinna við eitthvað sem maður hefur vit á, þekkingu til að sinna og áhuga á. Er það ekki? Og helst ætti vinnan að skila einhverju góðu (nú er ég, prófarkalesarinn, kannski komin í glerhús), tekjum sem og óefnislegum arði. Ég vil svoooooooo leggja inn í hagkerfið og þess vegna eyði ég tekjunum mínum í að styrkja íslenska framleiðslu.
En ætli það geti verið að flestir sem gætu unnið áhugaverða vinnu fyrir 400.000 á mánuði myndu velja atvinnuleysi fyrir 400.000 á mánuði ef þeir hefðu það val? Það er ekki nógu mikill peningur til að vera á endalausu flandri um allan heim. Okkur unglingnum kom saman um að það væri hægt að vera án atvinnu til langs tíma ef maður legðist í ferðalög. Svona ef við tökum eigingjarna sjónarhornið á málið.
Ég held samt enn að flestir þurfi fasta punkta í tilverunni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)