Sólsetur að morgni

Ég las í gærkvöldi undurfallega bók, Sólin sest að morgni, eftir Kristínu Steinsdóttur. Hún er full af minningabrotum austan af fjörðum þar sem landslagið skiptir máli og setur svip sinn á geðslagið. Mælandi fléttar tíðarandann, söguna og bókmenntir saman við uppeldið og hvernig uppalendunum tekst til. Hún er ekki skaplaus og henni er ekki ætlað það heldur. Og henni er ekki orða vant og fyrir það þakka ég.

Dæmi (bls. 19):

Okkur systkinunum lærist snemma að láta enga eiga hjá okkur. Það er dyggð að kunna að svara fyrir sig. Hallgerður langbrók og Bergþóra létu aldrei sinn hlut fyrir neinum. Þær sendu þræla og drápu menn.

Við sendum tóninn.

Annars eru minningarnar allar í nútíð, þátíðin bankar táknrænt á þegar sólin sest um morguninn. Hrífandi.

Kristín er ekki systir mín þrátt fyrir sama föðurnafn. Við vorum hins vegar á sama tíma í Leiðsöguskólanum. Nú get ég virkilega hlakkað til að lesa Ljósu.


Bloggfærslur 8. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband