Sunnudagur, 27. mars 2011
Ég er hjólisti
Ég hjólaði úr miðbænum í gær upp í Grafarvog af því að ég þurfti að nálgast bók í Foldasafni. Þótt ég sé hjólisti er ég ekki virkasti hjólisti Reykjavíkur þannig að þetta voru svolítil átök. Þegar ég kom að Bílabúð Benna var ég orðin svo leið á mótlætinu að ég ákvað að hvíla hjólstigið og gekk einn rúnt á planinu.
Vá, hvað Chevrolet er fallegur bíll.
Á leið upp brekkuna rakst ég á bíl með kerru sem var lagt á gangstéttina. Öllu heldur hefði ég átt að rekast á hann, en auðvitað steig ég af hjólinu og lempaði það framhjá bílnum sem vel að merkja var þar enn þegar ég kom aftur niður eftir þannig að þetta var greinilega ekkert skyndistopp.
Ég skil illa að Sundabraut sé ekki komin sem væri afar mikil og góð samgöngubót, en ég skil alls ekki að ekki sé einhvers konar göngu- og hjólaleið úr Grafarvoginum niður í bæ. Hjólamenn þurfa virkilega að fara stofnbrautir bílanna til að komast hverfa á milli. Ég þurfti sem sagt að hjóla meðfram Grafarvoginum tvisvar í stað þess að hjóla yfir hann.
Ég var að vísu verðlaunuð með fallegum æðarfuglum.
Á leiðinni til baka hjólaði ég Bryggjuhverfismegin við stórbrautina og þá var ég afvegaleidd sem lengdi leiðina aðeins. Á leið upp brekkuna kom svo á daginn að hjólastígurinn er fráleitur.
Harðir áhugamenn um bíllausan lífsstíl geta alveg linast í borg bílanna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)