Að reykja eða ekki

Kannski get ég trútt um talað þar sem ég reyki ekki. Fyrir vikið er sjálfri mér víðáttusama um aðgengi að smók. Svo er ég reyndar heldur ekki viðkvæm fyrir því þótt aðrir reyki, líklega af því að ég hef svo lítið lyktarskyn. Kostur eða galli?

Ég man þegar reykingar voru leyfðar á Hlemmi og mér finnst ég eiga minningar um bankagjaldkera með sígarettu í munnvikinu í vinnunni í Bankastræti. Þó kann að vera að ég hafi lifað það á grískri eyju eða séð það í bíómynd. Ég man þó klárlega þegar reykingar voru leyfðar hinum megin í flugvélinni og á afmörkuðu svæði á veitingastöðum. Það er bara reykurinn sem skilur ekki hugtakið landamæri, uss.

Svo er rétt að gera eina játningu enn, ég er frekar hrifin af breytingum breytinga vegna. Þegar maður breytir verklagi uppgötvar maður oft skynsamlegri aðferðir, þegar maður tekur krók á leið í vinnu uppgötvar maður styttri leið eða skemmtilegri, þegar maður prófar krydd í mat verður bragðið annað, stundum betra, þegar maður byrjar að spjalla við hálfókunnugt fólk reynist það oft forvitnilegt o.s.frv. Ef aðgengi að tóbaki verður breytt gerast kannski jákvæðir hlutir. Kannski.

Ég hef ekki lesið frumvarpið og það stendur ekki til. Ég heyrði hins vegar í flutningsmanni í útvarpinu í morgun og hún sagði að hugmyndin miðaði að því að stöðva eða hægja á nýliðun, núna byrjuðu að meðaltali tveir íslenskir unglingar á dag að reykja. Já, það er ekki hægt að mótmæla því markmiði, það þarf enginn að reykja eða taka í nefið/vörina, það tapar enginn á að sleppa því (nema þeir félagar Winston og Camel og allir hinir). Reyndar set ég spurningarmerki við tvennt, að flytja alla söluna inn í apótekin (af hverju ekki sérstakar tóbaks- (og eftir atvikum áfengis)búðir?) og að gera söluna lyfseðilsskylda með því fororði að um sé að ræða fíkn og vindlingar þá lyf.

En frumvörp eru bara lagatillögur sem er eðlilegt að taki breytingum og kannski sjáum við fram á tóbaksfrírra land áður en okkur verður endanlega stungið í jörðina. Er einhver mótfallinn því (annar en Pall Mall og Kent)?


Bloggfærslur 31. maí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband