Ný stjórnarskrá

Eftir snögga yfirferð yfir frumvarp stjórnlagaráðs til stjórnarskrár eru þetta fyrstu viðbrögð mín:

19. gr. er góð lausn á trúmálum:

19. gr. Kirkjuskipan

Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.

Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.

Ég vil aðskilja ríki og kirkju en ég skil og gútera að það taki lengri tíma en aðrar breytingar. Ég bý í íhaldssömu samfélagi og sætti mig við að góðir hlutir gerist hægt.

Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þau kjósa.  

Svo segir í 25. gr., sem sagt þau. Ráðinu tekst að forðast hið sjálfgefna orð þeir, enda eðlilegt að tala um þau af því að þau vinna en ekki bara þeir eða þær. Hins vegar gleymir ráðið sér þegar það talar um ráðherra og dómara og vísar þá alltaf í þá.

Í 89. gr. er svo annars stigið risaskref í málum Alþingis:

Ráðherrar hafa ekki atkvæðisrétt á Alþingi.

Sé alþingismaður skipaður ráðherra víkur hann úr þingsæti á meðan hann gegnir embættinu og tekur varamaður þá sæti hans.

Þetta er viðleitni til að slíta í sundur löggjafarvald og framkvæmdarvald og ég er mjög spennt að sjá afdrif þessarar greinar.

Þetta eru bara fyrstu hughrif. Samræmingarfasistinn í mér varð svo hryggur yfir ósamræmi milli kosningarréttar (42. og 78. gr.) og kosningaréttar (41. gr.) annars vegar, og hins vegar 8 (86. gr.) og tíu (90. gr.). Svo er mér reyndar til efs að hægt verði að tala um skýra stjórnarskrá á auðskiljanlegu máli fyrir alla.


Bloggfærslur 31. júlí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband