Hamingjusamar hænur og óhamingjusamir hundar

Mikið er erfitt að fá aldrei að vita hvaða dýr hafa lifað sæmilega hamingjuríku lífi. Í morgun heyrði ég viðtal við Sif Traustadóttur sem var kjörin formaður Dýraverndarsambandsins um helgina. Hún flutti mér þá raunalegu fregn að vistvænu eggin úr hinum meintu hamingjusömu hænum væru bara úr hænum sem fengju að valsa frítt, en samt þröngt, í húsi. Þær eru ekki í búrum en fá heldur ekki að fara út. Ég er ekki grænmetisæta og kannski er hræsnisfullt að segjast vilja að dýr lifi bærilegu lífi þangað til þau eru drepin svo að ég geti étið þau en ég sætti mig við að svona er fæðukeðjan. Ég vil eftir sem áður að dýr séu kát meðan þau eru á dögum. Ég trúi enn að lömbin leiki við hvurn sinn fingur á fjöllum sumarlangt. Ég man eftir Sif í Silfri Egils í vetur þar sem hún talaði um verksmiðjubúskap kjúklinga, líka á Íslandi. Ohh.

Ekki bætti svo úr skák að heyra um tíkurnar sem eru geymdar í búrum til undaneldis og þegar þær eru hættar að framleiða hvolpa er þeim, mörgum hverjum, komið fyrir - handanheims.

Grrr.


Bloggfærslur 12. mars 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband