Föstudagur, 23. mars 2012
Málsnið
Bróður mínum, kennara á Selfossi, rann blóðið til skyldunnar nýlega eftir að hafa lesið grein eftir Hermann Stefánsson sem skorar á karla að líta í eigin barm. Hermann er uggandi yfir þeim fyrirmyndum sem blasa við ungum körlum og hvetur til þess að karlar sem telja sig hafna yfir gagnrýni geri það samt einmitt ekki, heldur taki gagnrýnina til sín.
Og bróðir minn tekur áskoruninni sem karl, faðir og hugsanlega afi í framtíðinni, staldrar við og lítur í eigin barm. Allt gott um það. Og ég er líka sammála honum um að það er varhugavert að líta undan og vona að vandinn leysist af sjálfu sér. Það er ábyrgt að spyrna við fótum og malda í móinn, eða vera hávær, þegar fram af manni gengur.
Hins vegar er ég svo oft að velta fyrir mér tungumálinu, tungutakinu, málsniði. Og Trausti velur að kallast á við frummælanda, Hermann, í sinni grein. Hann slettir og skrifar erlend orð upp á íslenskan máta. Það vakir eitthvað fyrir honum og ég ímynda mér að hann velji þetta málsnið, þessi orð og þessa nálgun af því að þá nái hann kannski til lesenda sem gætu rankað við sér.
Ég get ekkert fullyrt en ég held að til sé markhópur sem tekur frekar eftir töff, meira kúl og miklu meira næs en geðugur, meira aðlaðandi og miklu meira heillandi. Er það sami markhópur og tekur eftir: Þarna siglir hin rósfingraða morgungyðja upp á himins bláa bogann þegar hann hefur bitið á?
Ég held að það geti verið, já. Það fer allt eftir samhenginu. Og dropinn holar steininn. Þótt fáir lesi hverja grein sem vinnur gegn vondum staðalmyndum geta þær ratað til sinna lesenda eins og hvert annað merkingarbært ljóð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)