Mánudagur, 28. maí 2012
,,Hjarta mannsins" eftir Jón Kalman Stefánsson
Einfaldlega albesta bók sem ég hef á ævi minni lesið.
Ég get varla útskýrt það. Reyni það svona: Það er saga, söguþráður. Hún er í fortíð mér svo fjarlægri að viti ég eitthvað um þetta líf er sú vitneskja úr sagnfræðibókum. Þó er ekki fráleitt að foreldrar mínir gætu þekkt þarna eitthvað til, annars að minnsta kosti foreldrar þeirra.
Fólk dregur fram lífið en Jón er svo jarðbundinn í frásögn sinni að hún nýtur sín sjálf, laus við viðkvæmni eða tilfinningasemi höfundar. Höfundur finnur til með persónum sínum en treður þeim tilfinningum ekki upp á lesandann. Fyrir vikið streymdu hjá mér tárin á sólbjörtum svölunum í mínu verndaða 21. aldar tækniumhverfi.
Stíllinn er hárnákvæmur. Af því að frásögnin er hæg, til þess að gera á sama hraða og blóðið rennur í fólki í myrkri og kulda, vinna sparlega notuð greinarmerkin á móti og sem sagt gefa svolítið í. Örugglega ekki tilviljun.
Og svo eru sumar setningarnar bara óendanlega fallegar. Myndirnar teiknast svo skýrt upp að mér finnst ég geta verið 20. aldar Íslendingur að lesa um samferðafólk mitt í lífinu.
Ég vona að sem fæstir lesi um þessa tilfinningahlöðnu upplifun mína því að slíkt hefur áhrif á væntingastuðulinn. Það er ekki bara bókin sem hrífur mann heldur skiptir líka máli í hvaða umhverfi maður hrærist á meðan, þ.m.t. hvaða bók maður bjástraði við að lesa næst á undan. Í mínu tilfelli vann allt með Hjarta mannsins og hún ER albesta bók sem ég hef lesið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)