Forsetaefnið mitt

Ef ég hefði mátt kjósa forseta 1980 hefði ég kosið Guðlaug Þorvaldsson. Áreiðanlega var hann vænsti maður og hefði gegnt starfinu vel. Hins vegar var Vigdís kosin og ég sætti mig alveg við það og fljótlega varð mér reyndar hlýtt til hennar.

Í baksýnisspeglinum sé ég mjög glöggt hvað kosning hennar skipti miklu máli. Hún bar hróður Íslands víða og talaði fallega til þjóðar sinnar. Hún gerði áreiðanlega mistök þegar hún skrifaði undir lögin um EES, það mikla framsal, 1993 þrátt fyrir meira en 30.000 undirskriftir Íslendinga sem skoruðu á hana að senda þau í þjóðaratkvæðagreiðslu. Enginn er óskeikull. En af hverju bauð þingið okkur ekki strax með?

Nú stöndum við enn frammi fyrir forsetakjöri og sex manna frambærilegur hópur stillir sér upp. Það má dást að öllu því fólki sem gefur kost á sér til þessa starfs í því umhverfi sem við búum við, vantraust, skothríð, veiðileyfi, skeytingarleysi, miklar árásir. Ég les aldrei Eyjuna og aldrei Pressuna og veit ekki hvernig umræðan er þar í athugasemdakerfinu en ég hef stundum lesið í gegnum fréttir á DV með öllu viðhengi og athugasemdirnar ganga gjörsamlega fram af mér. Mér finnst í góðu lagi að gagnrýna en flest það sem ég les er órökstutt og ómálefnalegt.

Þó að margir kjósi að láta neikvæðar tilfinningar keyra með sig út í rakin ósmekklegheit held ég samt að tilfinningar ráði mestu um það hvernig fólk kýs sér forseta - með tilfinningarökum. Sagan hefur sýnt að frambjóðendur þurfa ekki að standa við loforð, loforð sem má kalla kosningaloforð. Aðstæður breytast, fólk breytist, kjósendur breytast, það er alltaf hægt að vísa til ástands sem hefur breyst.

Ástæðan fyrir því að ég ákvað í vor að kjósa Þóru Arnórsdóttur er, jú, að ég þekki aðeins til hennar persónulega, að hún er manneskjuleg, að hún er vel máli farin, að hún kemur vel fyrir, að hún hefur góða menntun og að hún talar fjölda tungumála.

Hún er kurteis og henni hefur verið fundið það til foráttu. Mér finnst það kostur.

Hún segist vera íhaldssöm. Mér finnst það kostur í fari forseta sem ætlar að vera sameiningartákn þjóðar sinnar.

Hún á þrjú ung börn og sumir halda að hún geti ekki sinnt krefjandi starfi meðfram barnauppeldinu. Þá held ég að þeir hinir sömu geri sér hvorki grein fyrir hvað hún hefur verið í annasömu starfi meðfram heimilisrekstri og hvað smábarnaforeldrar vinna oft langan dag frá börnunum sínum. Og ef það á að skipta máli held ég að hún muni eiga betra með að sameina starf og einkalíf á Bessastöðum.

Eftir átta ár verður hún 45 ára gömul og ef hún nær kjöri talar hún um að hverfa þá til annarra starfa. Þá þiggur hún biðlaun í hálft ár, ekki eftirlaun til æviloka.

Þrátt fyrir kosti hinna frambjóðendanna fimm hef ég langbestu tilfinninguna fyrir Þóru Arnórsdóttur og ég hlakka mikið til að fara á kjörstað 30. júní og merkja við hana.


Bloggfærslur 17. júní 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband