Hafði Davíð rétt fyrir sér?

Ég las aldrei yfir mig um Icesave. Ég fylgdist ekki nógu vel með frá degi til dags til að fá ógeð á umræðunni. Og nú er henni líklega allri lokið, eða verður það þegar menn hafa hælst nógu mikið um.

Dómurinn í dag er vissulega ippon. Við Frónverjar hljótum öll að fagna henni. Ég geri það. En ég er mér samt meðvituð um að ég vissi aldrei nóg. Hver var gerandinn og hver þolandinn? Hvert var fórnarlambið? Voru Bretar og Hollendingar gráðugir? Voru boðnir vextir í London frámunalega háir? Voru það óreiðupésar einir saman sem lögðu fé inn á Icesave-reikninga?

Sigurjón Árnason og Björgólfur Björgólfsson kættust í dag, að vonum. Þýðir það að fullt af fólki hafði þá fyrir rangri sök? Voru þeir alltaf bara góðu gæjarnir í eðlilegum viðskiptum? Er til peningahimnaríki? Fór framliðna féð þangað og beið eftir að gírugu útlendingarnir kæmu að sækja það?

Ég leit inn á vefútgáfu Guardians og sá meðal annars þetta:

"We have decided that we are not going to pay the foreign debts of reckless people," David Oddsson, then head of Iceland's central bank, told Iceland in a televised address.

Ég man eftir þessu Kastljósi þegar þáverandi seðlabankastjóri var á því að útlendingar fylgdust ekki með íslenskum spjallþáttum.

Ég fagna, já, en ég hef samt samúð með innstæðueigendum sem voru í góðri trú og töpuðu, sumir, miklu af ævisparnaðinum. Ég tek undir með Skúla Magnússyni, við getum ekki júbilerað eins og um vel heppnaðan handboltaleik væri að ræða.

Við viljum áfram vera siðuð þjóð meðal siðaðra þjóða. Er orðsporið óskaddað? Erum við hvítskúraðir englar og svömlum um í himnaríki fjárfestanna? Erum við bráðum laus við gjaldeyrishöftin? Njótum við trausts vandalausra?

Hafði Davíð rétt fyrir sér? Erum við skuldlaus og kvitt við alla dauðlega menn? Er allt hinum að kenna?

- Ég held að Icesave-umræðan sé ekki alveg búin. Þegar til stykkisins kemur snýst hún ekki bara um aura og sent.


Bloggfærslur 28. janúar 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband