#yolo

Unglinginn í Gaflaraleikhúsinu í kvöld. Ég var búin að heyra viðtal við þessa greindarlegu tvo stráka þannig að ég gekk að því sem vísu að það væri eitthvað spunnið í sýninguna. Og vó, ég hló og hló í 100 mínútur af 105. Mér skilst að þeir séu í 9. bekk og mér er alveg sama hvort þeir strangt til tekið skrifuðu allt sem þeim er eignað, þeir nálguðust unglingsárin af mikilli fimi og skemmtu mér á fullu blasti. Foreldrar þeirra, vinir og skólafélagar voru klárlega á frumsýningunni (í kvöld) og þess konar fólk er yfirleitt erfiðasti áhorfendahópurinn.

Þessar fimm mínútur sem misstu marks voru þegar þeir predikuðu um einelti. Að öðru leyti ætti þessi sýning (með þessum eða sambærilega flinkum leikurum) að rata til sem flestra.

 Unglingurinn í Gaflaraleikhúsinu


Fugl á víðavangi

Fjölbreytilegasta dýralíf á Íslandi hlýtur að vera fuglalífið. Getur verið að ég hafi tekið rétt eftir á fræðslufundi í kvöld að tæplega 80 tegundir verpi á Íslandi? Ég á fuglavísinn þannig að sjálfsagt gæti ég talið.

Fulltrúar frá Fuglavernd hittu okkur í gönguklúbbnum Veseni og vergangi og sögðu okkur sitt lítið af hverju um þá fugla sem við gætum hnotið um á gönguferðum. Guðsblessunarlega vissi ég sumt en ég var búin að gleyma að himbrimi synti um með ungana á bakinu en lómurinn ekki. Við megum ekkert vita um snæuglu, t.d. hvar hún heldur sig, af því að hún er í útrýmingarhættu. Við viljum ekki annað geirfuglsslys. Branduglunni hefur fjölgað í réttu hlutfalli við meiri lúpínu. Hún var áður flokkuð sem ránfugl en ekki lengur. Haftyrðillinn er hverfandi en er þó finnanlegur í grennd við Sauðárkrók.

Félagið Fuglavernd var stofnað til að vernda haförninn og nú er stofninn kominn upp í um 70 pör.

Þetta og langtum langtum langtum meira ætti maður að hafa á hraðbergi.


Bloggfærslur 17. október 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband