Tímakaup lausráðins leiðsögumanns

Ferðaþjónustan er að verða heilsársatvinnugrein. Ferðaþjónustan er orðin stoð undir efnahagnum, skaffar gjaldeyri og er mikilvægt fag sem reynir á vetur, sumar, vor og haust. Sumarið er vissulega enn þyngst en nokkur fyrirtæki eru með dagsferðir árið um kring og ég þekki marga leiðsögumenn sem eru í lengri og styttri ferðum yfir vetrartímann, aðallega ökuleiðsögumenn. Nýliðinn október var til muna annasamari en október 2012. Sjálfsagt hafa fleiri og fleiri ráð á frekari ferðalögum, eru með óreglulegan vinnutíma, langar að sjá norðurljósin og svo held ég að tónlistarhátíðir eins og Iceland Airwaves skipti verulegu máli í því að laða fólk hingað á jaðartímum.

Ég er komin í kjaranefnd Félags leiðsögumanna og við erum að semja kröfugerð. Félagsmenn vilja hærri laun, (meira) starfsöryggi, undirbúningstíma greiddan, raunvinnutíma greiddan, lengri uppsagnarfrest ef ekki verður af ferð og orlofslaun greidd inn á sérstakan reikning. Leiðsögumenn komast ekki til læknis á vinnutíma, ekki með börn til læknis, ekki tannlæknis, geta ekki ráðstafað matartímanum að vild og geta ekki fylgt fólki til grafar. Ef við viljum gera þetta sem ég taldi upp verðum við að gera það á launalausum frídegi. Meira að segja veikindadaga þarf að sækja sérstaklega til félagsins en ekki vinnuveitandans af því að obbinn af leiðsögumönnum er lausráðinn. Sem betur fer er sístækkandi hópur í vinnu við leiðsögn allt árið - en samt lausráðinn.

Og taktu nú vel eftir: Tímakaupið fyrir leiðsögumann í efsta flokki er kr. 1.512.

Tímakaup fyrir lausráðinn leiðsögumann í efsta flokki með undirbúningstíma, bókagjaldi, fatagjaldi, orlofi, orlofsuppbót og desemberuppbót er kr. 1.930.

Ef við reiknum mánaðarlaun lausráðins leiðsögumanns, 173,3 tíma, eru dagvinnulaunin kr. 334.469 og þá, eins og fram er komið, förum við til læknis og allt það í okkar eigin tíma og fáum ekki greiddan orlofstíma. Ef við reiknum með að leiðsögumaður taki 24 daga sumarfrí eru mánaðarlaunin 303.653 krónur fyrir skatt (237.888 ef ég reikna kostnaðarliðina frá). Og það er algjörlega undir hælinn lagt hvort lausráðinn leiðsögumaður „fær“ vinnu alla þá daga sem hann vill vera í vinnu. Svo þarf hann að hafna vinnu þegar hún býðst af því að hann er búinn að ráðstafa deginum. Á annatíma yfir sumarið fá margir leiðsögumenn mörg símtöl sem hafa ekki í för með sér vinnu af því að við getum ekki verið í tveimur ferðum á sama tíma.

Starfsfólk á ferðaskrifstofum er líka hætt að vera hissa þegar því tekst ekki að manna ferðir. Ferðaskrifstofur eyða fúlgum fjár í að leita uppi leiðsögumenn á öllum tímum, mest þó sjálfsagt á álagstímum yfir sumarið. Það kostar bæði mannskap og símtöl sem þarf að borga fyrir beinharða peninga.

Er ekki tímabært að snúa olíuskipinu? Ég sé ekki alveg tilganginn í verkfalli, ég vil að menn ræði sig að niðurstöðu með rökum og í sátt. Allir sem þekkja til vita að launin eru of lág og starfsöryggið alltof lítið.


Bloggfærslur 14. nóvember 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband