Viðsemjandi minn, Samtök atvinnulífsins

Nú er ég spennt. Samtök atvinnulífsins auglýsa, kannski smátúlkað, að allt umfram 2% launahækkun hleypi af stað verðbólgu og taki launahækkunina strax til baka; stöðugleikinn og kaupmáttur - ha? - verði aðeins tryggður með hóflegum launakröfum.

Auðvitað vil ég alls ekki verða persónuleg þannig að ég ætla að taka dæmi af öðrum leiðsögumanni en mér. Sá leiðsögumaður vinnur 173,33 dagvinnutíma í mánuði og fær brúttó fyrir 262.000 - æ, fyrirgefið, 334.000 með orlofi, útlögðum kostnaði vegna fata- og bókakaupa (endurnýjunar er þörf á skóm, úlpum, kannski kortum og áttavitum), orlofsuppbót, desemberuppbót og veikindadögum. Kostnaðarliðirnir eru m.a.s. skattlagðir sem hlýtur að vera einhvers konar sniðganga við skattalög.

Leiðsögumaðurinn í sýnidæminu er heppinn, fær vinnu alla dagana í janúar, veit m.a.s. 5. janúar að hann fer í Borgarfjörðinn 25. janúar, getur spókað sig á sandölum í 20°C, þarf aldrei að gera sér aukaferð (launalausa í greiðaskyni) á ferðaskrifstofuna til að sækja gögn, systkini hans fara í foreldraviðtölin vegna barnanna og ferðirnar byrja alltaf á sama staðnum og á sama tíma.

Þegar búið er að reikna skattinn og launatengd gjöld frá fær hann u.þ.b. 245.000 útborgað. Nú, hva, hann á íbúðina skuldlausa þannig að hann þarf bara að borga mat, rafmagn, hita og kostnað vegna barnanna og á 100.000 krónur afgangs eftir mánuðinn sem hann getur lagt fyrir til að gera eitthvað með börnunum næsta sumar. Það er alveg hellingur sem hægt er að gera fyrir 100.000 krónur því að kaupmátturinn er svo mikill vegna stöðugleikans - eins og við vitum.

Það er verst að í febrúar er hann ekki svona heppinn. Þá verður eldgos sem skelfir hópana sem hann átti að taka á móti og hann vinnur bara 10 daga þótt hann sé búinn að gera allar sömu ráðstafanir nema núna ætlar pabbi hans að hlaupa í skarðið þegar börnunum liggur mikið á. Bömmer, þvottavélin bilar og hann þarf að láta gera við hana. Honum er illt í einni tönninni en hann er svo  heppinn að vera í launalausu fríi og geta farið með 15.000 á greiðslukortinu til tannlæknisins síns. Útborguð laun verða 122.000 og hann þarf að taka af því sem hann lagði til hliðar í janúar.

Ég þekki engan leiðsögumann sem vinnur 8 tíma á dag í 21,7 daga í mánuði, frekar en endilega í öðrum stéttum. Dagsferðirnar eru oft 10 tímar, allt upp í 16 tíma á einum og sama deginum í hvataferðunum. Þetta er hálfgerð tarnavinna sem sumum hentar ugglaust mjög vel en er dálítið óheppileg fyrir fjölskyldufólk. Ókei, þá er kannski bara fínt að fólk sem á engin eða uppkomin börn sinni leiðsögn. Er það rökrétt? Smækkar það ekki tæknilega fullmikið úrvalið og er álíka rökrétt og að aðeins morgunhanar mæti í vinnu fyrir klukkan níu á morgnana?

Ég virðist kannski komin út fyrir efnið en man þó enn hvað ég var að hugsa þegar ég byrjaði að skrifa áðan. Fólkið í framvarðarsveit Samtaka atvinnulífsins er færra en mannmörgu stéttirnar í Starfsgreinasambandinu, hjúkrunarstéttirnar, kennarar og meira að segja í Félagi leiðsögumanna, en það hefur fín laun út af ábyrgð, löngum vinnudögum og fjarvistum frá heimili og fjölskyldu - en býr hvorki við kröpp kjör né óvissu um atvinnuástandið á morgun eða í næsta mánuði. Það þarf ekki einu sinni að kaupa pennana, skrifblokkirnar eða snjallsímana sína sjálft. Er ég að ýkja eitthvað?

Ykkur að segja trúi ég ekki stöku orði úr þessari auglýsingu. Og þar að auki koma laun leiðsögumanna að utan. Vegna okkar kemur meiri gjaldeyrir inn í landið. Átta Samtök atvinnulífsins sig ekki á þessu? 


Meðvirkur leiðsögumaður

Sá leiðsögumaður, eða hvaða láglaunaþegi sem er, sem rukkar ekki unninn tíma af því að hann „nennir því ekki“ er meðvirkur. Af hverju nennir hann því ekki? Af því að atvinnuöryggið er lítið og sumir leiðsögumenn sem hafa sagt: „Ég var ekki búin/n í vinnunni fyrr en kl. 23 af því að ég átti að fara með farþegana í siglingu / út að borða / í göngutúr eða þurfti að sinna veikum/slösuðum farþega og fer fram á að fá tímann greiddan“ hafa kannski fengið tímann greiddan eftir eitthvert nöldur - en svo er ekki hringt meir.

Obbinn af leiðsögumönnum er lausráðinn/verkefnaráðinn og þótt hann standi sig vel er ef til vill gengið framhjá honum ef hann fer fram á að fá greidd laun fyrir raununninn tíma. Í hringferðum erum við ekki á bakvakt alla nóttina þótt sumt starfsfólk ferðaskrifstofa líti svo á að það eigi að geta náð í leiðsögumanninn sinn hvenær sem er.

Ég heyrði alls kyns sögur á félagsfundi Félags leiðsögumanna í kvöld og hallast að því að við séum ansi meðvirk. Ég er sjálf að gefast upp á þessari skemmtilegu vinnu og leyfi mér að gera talsverðar launakröfur ef einhver vill ráða mig í verkefni. Sum ferðaþjónustufyrirtæki hafa metnað fyrir hönd fyrirtækja sinna og ráða skólagengna og vana leiðsögumenn og borga sanngjarnt en sum reyna endalaust að koma sér hjá því. Ég veit um fyrirtæki sem sprakk á limminu eftir að hafa ráðið ómögulega manneskju af því að það vildi ekki borga það sem þurfti og manneskjan sem tók hringferðina að sér kunni ekki almennilega tungumálið og klikkaði á ýmsu smálegu sem varð - 10 fingur upp til guðs - til þess að erlenda ferðaskrifstofan fann sér annan samstarfsaðila á Íslandi.

Vonandi tekst leiðsögumönnum og SAF að ná þannig lendingu í kjaraviðræðunum að ekki flýi fleiri leiðsögumenn.

1.512 krónur í efsta dagvinnuflokki er alltof lágt kaup. Það þýðir 262.075 krónur í mánaðarlaun. Lágmarkslaun hjá Eflingu eru 211.941 krónur á mánuði og þá verður starfsmaðurinn að vera orðinn 18 ára. Leiðsögumenn hafa verið í eitt til eitt og hálft ár í leiðsögunámi, þurfa að kunna skil á ýmsu, tala tungumál og vera minnst 21 árs - og leiðsögumenn sem eru í efsta flokki eru alla jafna bæði eldri og reyndari en svo. Og lausráðnir með sveiflukennd verkefni. Okkur telst að auki til að upp undir 80% leiðsögumanna séu með háskólagráðu í einhverju fagi.

Jamm, við erum meðvirk að sætta okkur við eina einustu klukkustund á 1.512 krónur á tímann, að ég tali ekki um tímana sem við sinnum farþegum án þess að fá greidda eina krónu. Og lausnin er ekki að þessi eða hinn leiðsögumaðurinn hætti, túristarnir halda áfram að koma og hver á að sinna þeim og skemmta ef allir forða sér bara úr stéttinni? 

Spurningin sem ég spyr mig er: Hvað er ásættanlegt?


Bloggfærslur 21. nóvember 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband