Að læka eða ekki að læka

Allir eiga rétt á skoðunum sínum. Reyndar finnst mér hvað dýrmætast í fari fólks að það hafi skoðanir en auðvitað er ég ekki alltaf sammála öllum, skárra væri það. Ég ætlast heldur ekki til að fólk hafi skoðanir á öllum sköpuðum hlutum en stundum skautar fólk framhjá því að hafa eðlilega skoðun og láta hana í ljósi. Það vottar sossum fyrir því að fólk vilji ekki axla ábyrgð á skoðunum sínum og þykist þess vegna ekki hafa þær.

Það held ég alltént.

En felur læk á Facebook ekki í sér skoðun? Hvati fólks getur verið ýmis, það kinkar kolli til pennans og segist hafa lesið eða séð færsluna. Ef það lækar til að styðja viðkomandi vin, fjölskyldumeðlim eða félaga hlýtur það að minnsta kosti að vera þeirrar skoðunar að viðkomandi penni hafi nokkuð til síns máls, í það skiptið eða allajafna.

Ég er nefnilega enn að hugsa um leiðara Friðriku Benónýsdóttur í Fréttablaðinu í morgun. Ég sleppi því stundum að læka eitthvað af því að ég óttast - já - að það mætti rangtúlka. Ég er í þannig stöðu að ég kæri mig ekki um að vera stimpluð á þennan eða hinn veginn án þess að fá tækifæri til að standa fyrir máli mínu. Læk eru lögð út, það er óhjákvæmilegt. Þess vegna finnst mér að fólk eigi að hugsa sig vel um áður en það lækar andúð, köpuryrði, stóryrði, ávirðingar - og mér finnst auðvitað að fólk eigi ekki að slá fram sleggjudómum, haturspósti, órökstuddum yfirlýsingum og fúkyrðum.

Samt finnst mér að fólk eigi að segja það sem því finnst - bara með rökum. 


Bloggfærslur 26. nóvember 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband