Miðvikudagur, 4. desember 2013
Hver eru viðurlögin við því að brjóta lög um RÚV?
Ég sat með um það bil 1.000 manns í Háskólabíói í einn og hálfan klukkutíma í kvöld. Guðrún Pétursdóttir var röggsamur fundarstjóri sem lagði út af erindum og flutti kveðjur héðan og þaðan. Guðmundur Andri var með brýningu, Melkorka sögustund, Hanna G. Sigurðardóttir dagskrárgerðarmaður (ekki í upptalningunni) tölur úr rekstri, Sigríður talaði sem langtímahlustandi, Benedikt um sameiningu kynslóðanna og Kolbeinn eiginlega líka. Ræðumenn voru yfirvegaðir sem mér finnst alltaf miklu betra. Þótt ég hafi ekkert á móti andagift og stemningsræðum á ég bágt þegar þær verða of tilfinningaþrungnar. Engin ræðan var svoleiðis þótt þau legðu sum út af eigin hlustun og lífi með útvarpinu.
1. gr. laga um Ríkisútvarpið er svohljóðandi:
Markmið laga þessara er að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ríkisútvarpinu er falin framkvæmd hennar eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum. Ríkisútvarpið er þjóðarmiðill og skal rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Það skal leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.
Ég var aðeins að velta fyrir mér hver sækir og hver refsar ef þetta ákvæði er brotið.
Einhver ræðumaður hafði líka gluggað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar:
Íslensk þjóðmenning verður í hávegum höfð, að henni hlúð og hún efld. Áhersla verður lögð á málvernd, vernd sögulegra minja og skráningu Íslandssögunnar, auk rannsókna og fræðslu. Ríkisstjórnin mun vinna að því að auka virðingu fyrir merkri sögu landsins, menningu þess og tungumálinu, innanlands sem utan.
Hún er náttúrlega síðan í maí og kannski dottin úr gildi. Hlutirnir breytast svo hratt orðið ...
Ég hlusta á Bylgjuna og ég hlusta á X-ið (reyndar bara Harmageddon) og þar kennir ýmissa góðra grasa en það er auðmelt spjall og hraðspiluð tónlist að mestu leyti. Rás 1 sinnir allt öðru litrófi og gerir það ein útvarpsstöðva. Málefnalega er bara út í bláinn að slá af svona marga unna þætti.
Hvað veldur því að tónlistaryfirsýninni er kastað fyrir róða? Ég trúi ekki að flokkapólitík eigi hlut að máli. Hvaða flokkur gæti beðið skaða af því að við kynnum betri skil á djass eða blús eða rokki? Eða sígildri tónlist? Á fundinum kom fram að fram til þessa hefur Rás 1 fengið 7% af rekstrarfénu en yfirstjórnin 6%. Það sér hver maður að röðin er alvitlaus.
Es. Starfsmannamál RÚV voru rædd á þingi í dag.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)