Fimmtudagur, 13. júní 2013
Hótel í miðbænum
Egill Helgason er rökfastur maður og kann ágætlega að tjá sig en ég er samt óskaplega ósammála honum um að ástæðulaust sé að amast við nýrri hótelbyggingu á NASA-reitnum. Ég er iðulega þarna í rútum með fjölda manns og það er alltaf erfitt að athafna sig, líka þótt við séum bara nokkrir stórir jeppar að sækja hópa fólks.
Þegar ég er í útlöndum vil ég líka vera miðsvæðis í borgum. Það er reyndar ekki alltaf í boði og þá er mikilvægt að almenningssamgöngur séu góðar. Á Hilton, sem ég myndi ekki flokka miðsvæðis í Reykjavík, fá hótelgestir strætópassa og komast þannig milli hverfa með sæmilegu móti. Þeir farþegar sem hafa tíma og kjósa að gera gott úr hafa farið í útsýnisferðir með strætisvagni og verið margir hverjir himinlifandi. Það væri samt til bóta að geta tekið vagn af Suðurlandsbrautinni og alla leið niður í Lækjargötu en þá þarf fólk að hafa rænu á, eða láta segja sér, að taka leið 11 af Háaleitisbrautinni.
Ef alvara verður gerð úr því að tildra upp hótelum um allan miðbæ þarf að minnsta kosti að sjá til þess að rútur, jeppar og leigubílar eigi greitt aðgengi. Passar það við Austurvöll?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)