Miðvikudagur, 21. ágúst 2013
Sönn saga?
Það er dálítið erfitt að vera ósammála Hallgrími Helgasyni, Agli Helgasyni, Fríðu Björk Ingvarsdóttur og dómnefnd Fjöruverðlaunanna. Enda er ég ekki hrikalega ósammála, bara smávegis. Ég var að klára Ósjálfrátt og þurfti að pína mig til að klára undir lokin. Það eru margar undursamlega skemmtilegar senur í bókinni, þar á meðal ein framarlega sem ég heyrði höfundinn lesa í desember, sögur af Mömmu og Skíðadrottningunni, sögur af Eyju og Öggu, hjartnæmar lýsingar á samskiptum Eyju og eiginmannsins, minningar um snjóflóðið - ég sagðist ekki vera hrikalega ósammála - en þessi tvískipta saga dettur of oft í tvennt. Fortíð og nútíð rekast harkalega saman í sögupersónunni sem er svo lík höfundinum og, já, mér finnst Ósjálfrátt of mikil lykilsaga. Raunveruleikinn truflar mig. Ég efast ekki um að skáldskapurinn stuggi oft við sannleikanum en þjóðskáldið, Mamma og Fortíðareiginmaðurinn þvælast um of fyrir skáldskapnum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)