Þriðjudagur, 7. janúar 2014
Gylfi og Vilhjálmur í Kastljósinu
Kastljós kvöldsins er ekki komið í Sarpinn en Sigmar spurði Gylfa Arnbjörnsson hjá ASÍ hvort hann gæti lifað af 191.000 kr.
Okkur heyrðist hann segja: Alveg eins.
Það fólk sem er með 191.000 kr. í heildarlaun á mánuði gerir ekki meira en að lifa af. Og ef eitthvað fer úrskeiðis, veikindi eða biluð þvottavél, eða ferming stendur fyrir dyrum, að maður tali ekki um þvílíkan munað sem skíðaferð til Akureyrar er eina helgi, er fjandinn laus.
Á Íslandi er ekki hægt að lifa samanburðarlífi ef launin eru 191.000 á mánuði. Það eru 2.292.000 á ári. Hvað kostar skikkanleg þriggja herbergja íbúð í Reykjavík? Hvað kostar hveitipokinn? Hvað kostar að kynda? Hvað kostar að hringja? Guð minn góður, hvað kostar að keyra milli hverfa?!
Kjarasamningarnir eru ekki boðlegir.
Eini raunhæfi samanburðurinn er það líf sem meðalmaðurinn á Íslandi lifir. Sjálf veit ég ekki til þess að ég þekki neinn sem getur ekki leyft sér að hafa netið heima hjá sér.