Meðvirkni drepur

Ég held reyndar ekki að ég hafi verið í lífshættu vegna minnar meðvirkni en hún drepur samt dálítið lífsgleðina og trú á réttlætið.

Ég á bróður sem er nokkrum árum eldri en ég. Hann var orðinn drykkjumaður á unglingsárunum en fór í meðferð og hætti að drekka 23 eða 24 ára ef ég man rétt. Eftir það tipluðu mamma og pabbi eilíflega á tánum í kringum hann, alltaf logandi hrædd um að hann félli. Ég held að hann hafi ekki fallið fyrir áfenginu í 30 ár en miðað við hæpið í honum gæti hann vel hafa verið á öðrum hugbreytandi efnum allan tímann. Hann hefur alltaf verið allur á lofti, með heillandi framkomu fyrir þá sem kunna að meta miklar skýjaborgir, tollað illa í vinnu og námi því að aldrei var neitt nógu gott fyrir hann. Hann útskrifaðist samt sem garðyrkjufræðingur um síðustu áramót og er nú skráður deildarstjóri Ölurs. Ég vona að hann standi sig þar í verklega þættinum en get því miður vottað að hann er ófær um að skrifa heimildaritgerð. Hann hefur aldrei tileinkað sér neina grunnfærni í akademískum vinnubrögðum og ég er í alvörunni glöð ef hann getur hlúð að græðlingum og komið þeim upp.

Í hruninu lenti hann illa í ýmsu bæði með fyrirtæki og húsnæði. Ég lánaði honum handveð í bankareikningi og að því var gengið. Ég var dofin eins og margir í hruninu þótt ég hafi sjálf ekki misst vinnu eða húsnæði en það stóð aldrei til að gefa honum 5 milljónir. Aldrei. Og af hverju hefði ég átt að vinna þrotlaust og fara vel með mitt sjálfsaflafé til að hann gæti hlunnfarið mig? Það stóð aldrei til.

En það klikkaða er að af meðvirkni með Gumma og svo mömmu og pabba sem voru alltaf stressuð yfir honum gekk ég aldrei eftir endurgreiðslu lánsins meðan þau lifðu. Mamma dó fyrir tæpum tveimur árum og pabbi núna í ágúst og þau eftirlétu honum nóga peninga til að endurgreiða mér skuldina. Hann er að reyna að koma sér hjá því þótt hann hafi gengist við skuldinni. Honum finnst ég bara ekki nógu blönk til að hann þurfi að borga mér það sem hann fékk lánað hjá mér og einhver hluti af honum heldur að ég sé viðskiptabanki og lánið viðskiptakrafa.

Pabbi var í eitt ár og níu mánuði á Hrafnistu, leiður allan tímann og saknaði mömmu. Gummi fór til hans fjórum sinnum á þeim tíma og aðallega til að suða um peninga við hann. Ef hann hefði séð sóma sinn í að fara til pabba á sirka 10 daga fresti, spila við hann, spjalla og stytta honum stundir hefði ég sennilega verið til í að sýna honum umburðarlyndi. En Gummi er bara eitt útblásið egó og gerir ekki neitt nema sem hann heldur að hann geti grætt á. Þess vegna gef ég núna ekki tommu eftir. Mér líður líka strax betur þegar ég er búin að deila því með einhverjum hvaða mann bróðir minn hefur að geyma og það styrkir mig í því að vera ekki lengur meðvirk.

Hann sótti fundi áratugum saman hjá AA sem styrkti í honum sjálfselskuna.


Bloggfærslur 11. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband