Auður Haralds

Í kvöld var heimildarmynd um Auði Haralds í sjónvarpinu. Augun í mér stóðu á stilkum og einbeitingin var algjör. Af bókmenntaskrifum mínum, sem ég játa að eru svo sem af skornum skammti, er ég langstoltust af að hafa skrifað BA-ritgerðina mína um Hvunndagshetju undir titlinum Er kímni gáfa? Því miður er hún ekki í Skemmunni enda 30 ár síðan ég skrifaði hana. En kímni er svo sannarlega gáfa og söguhetjan Auður notaði hana til að verja sig gegn heimilisofbeldi.

Mögnuð bók. Magnaður höfundur. Og fín ritgerð, ef ég man rétt. Já, og góður þátturinn í kvöld. Ég hafði ekki minnst gaman af því þegar Auður sagðist skrifa bréf sem þyrfti að senda sem böggul. Ég skrifaði henni nefnilega til Rómar þegar hún bjó þar og fékk þverhandarþykkt bréf til baka. Ég þarf að hafa uppi á því við tækifæri. Og ritgerðinni.

Og hugrenningatengslin bera mig að öðru áhugaverðu úr útvarpsþætti sem ég hlustaði á um helgina, þegar lögreglumálum þokaði of hægt á sjötta áratug síðustu aldar VEGNA SKORTS Á VÉLRITUNARSTÚLKUM sem þýddi að lögreglumennirnir þurftu af miklu kunnáttuleysi að verja obbanum af vinnudeginum í að vélrita upp málin.

Auður hafði m.a. ofan af fyrir sér og aflaði tekna til að fæða sísvöngu börnin sín með vélritunarkunnáttu. Og vélritun er það fag í 9. bekk (nú 10. bekk) sem hefur gagnast mér hvað best á lífsleiðinni. Fingrasetningin, maður minn, fingrasetningin.

 


Bloggfærslur 10. apríl 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband