Starfslokasamningur - smjörklípa?

Nú er kallað eftir að stjórn Íslandsbanka birti starfslokasamning fyrrverandi bankastjóra Íslandsbanka. Við erum að tala um bankastjóra sem var með svívirðilega há laun sem ég heyrði engan gera athugasemd við, bankastjóra sem fékk sérstaklega greidda yfirvinnu upp á 11 milljónir fyrir að standa að ólöglegri sölu á hlutum í bankanum - og við hverju býst fólk þegar starfslokasamningur er gerður við hana á grundvelli ráðningarsamnings? Ég giska á 60 milljónir í kveðjugjöf.

Og hvað ætla stjórnmálamenn að gera þegar kveðjugjöfin verður gerð opinber?

Eftirlitskerfið er grútmáttlaust og liðónýtt. Héraðsdómarar eru með um 2 milljónir á mánuði og einhverjir fara á límingunum yfir því en þeim er treyst fyrir miklum réttindamálum. Ég sé reyndar ekki upphæð þingfararkaupsins núna en laun þingmanna held ég að séu undir 2 milljónum á mánuði og ef menn vanda sig og leggja sig fram er starfið mjög tíma- og orkufrekt. Síðan eru bankastjórar og framkvæmdastjórar í bönkum með 4-5 milljónir á mánuði og þeim tekst ekki að fara að lögum í vinnunni!

Ég er búin að stofna reikning hjá Indó. Svo á það fyrirbæri eftir að sýna að það falli ekki í sama fúla pyttinn og bankarnir. Vald spillir og mikið vald spillir mikið þannig að ég er hlynnt valddreifingu. Sjáum hvað setur.


Bloggfærslur 2. júlí 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband