Sunnudagur, 13. október 2024
The Substance í Bíó Paradís
Nú er ég búin að fara þrisvar í bíó á tæplega hálfum mánuði og enn man ég ekki eftir betri mynd en Ljósvíkingum. Í gærkvöldi fór ég að sjá The Substance í Bíó Paradís sem er uppáhaldsbíóhúsið mitt, mér líður svo vel í þeim húsakynnum. Svo las ég umsagnir um myndina eftir á og fann merkilega margar umsagnir sem ég var sammála. Myndin er næstum tveir og hálfur tími og mér fannst hún ekki of löng í tíma en hún skiptist eiginlega í tvennt. Í fyrri hlutanum er sönn og heiðarleg - og vel gerð - ádeila á fegurðar- og fegrunariðnaðinn, ádeila á kröfur um endalausa og óbrigðula fegurð, ádeila á græðgi æskunnar. Þá varð mér oft hugsað til Myndarinnar af Dorian Gray, um Dorian sem valdi eilífa æsku.
Í seinni hlutanum þótti mér leiðigjarnt og eiginlega óskiljanlegt hve miklu púðri var eytt í dillandi rassa í fegrunariðnaðinum og svo tók við óhemjumikið splatter. Ég vil ekki skemma fyrir hugsanlegum áhorfendum myndarinnar, en það var eins og kvikmyndin ætti að höfða til fjölmargra markhópa. Ég hélt að hálfu fyrir augun drjúgan hluta seinni partinn og ég er aðeins of mikill raunsæispési til að hafa gaman af svona öfgafullu bíói. Í fyrri hlutanum var mjög mikil og frábær gróteska, þegar aðalkallinn í sjóinu borðaði með ýktum smjatthljóðum og þegar við gátum talið nefhárin í nefinu á honum, þar þótti mér vel farið með brellurnar.
Ég held ekki að ég muni hugsa oft til myndarinnar í framtíðinni. Demi Moore var reyndar alveg stórkostleg í sínu hlutverki og ég sé alls ekki eftir að hafa farið í bíó en veit að ég hefði ekki horft óslitið í 140 mínútur í sófanum.
Og ég reynist þá bara slarkfær í ensku, myndin var nefnilega ekki með íslenskum texta sem ég les alltaf þegar hann er í boði en ég tel mig hafa skilið myndina án hans. Spyr samt: Má það? Er ekki málstefna sem segir að allt erlent efni eigi að vera þýtt?
Nei, í fjölmiðlalögum stendur:
29. gr. Tal og texti á íslensku.
Fjölmiðlaveitur skulu eftir því sem við á efla íslenska tungu. Fjölmiðlar sem miðla hljóði og texta á íslensku skulu í því skyni marka sér málstefnu. Þó skal heimilt að starfrækja fjölmiðla hér á landi á öðrum tungumálum en íslensku.
Hljóð- og myndefni á erlendu máli, hvort heldur sem því er miðlað í línulegri dagskrá eða eftir pöntun, skal jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði sem gerast í sömu andrá. Við þær aðstæður skal fjölmiðlaveita, eftir því sem kostur er, láta fylgja endursögn eða kynningu á íslensku á þeim atburðum sem orðið hafa.
Ákvæði 2. mgr. á ekki við um endurvarp frá erlendum sjónvarpsstöðvum, enda sé um að ræða viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp heildardagskrár sjónvarpsstöðva. Ákvæði 2. mgr. á ekki heldur við þegar viðkomandi hljóð- eða myndmiðill er starfræktur á öðru tungumáli en íslensku, sbr. 1. mgr.
Bíó Paradís er ekki fjölmiðlaveita og engin skylduáskrift er að bíói.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)