Sunnudagur, 15. desember 2024
Blönduð byggð
Ég er enn alveg ofandottin af hneykslun yfir þessu Haga-máli í Breiðholtinu. Hver í veröldinni hélt að það væri í lagi að byggja vöruhús þétt upp við stofuglugga íbúa? Ég næ þessu engan veginn og mér finnst einhver þurfa að axla ábyrgð en augljóslega mun kostnaðurinn falla á borgarbúa að einhverju leyti.
En upp úr 1990 átti ég heima í Ingólfsstræti. Alveg í miðbænum. Þegar ég keypti þá íbúð var svæðið skilgreint sem blönduð byggð. Einhverjum árum síðar voru skemmtistaðir orðnir svo brjálæðislega háværir í þrjár áttir að ég fékk heilbrigðiseftirlitið til að desilbelmæla hann. Hann var yfir mörkum en aðallega var bassinn truflandi. Ég var að bilast.
Ég leigði íbúðina frá mér og flutti. Leigjandinn hafði búið við járnbrautarstöð í New York og endaði á að kaupa hana. Ég varð að slá af kaupverðinu en ég losnaði úr þessari hávaðamengun og veit ekki hvernig staðan er í þessu húsi í dag.
Áður en ég gafst upp hafði ég samband við þáverandi borgarstjóra sem sagði skýrt og afdráttarlaust við mig: Einhvers staðar verða vondir að vera. Einhver annar borgarfulltrúi tók undir með því orðalagi að ég hefði valið mér þessa búsetu.
Ég segi enn og skrifa að ég var í góðri trú þegar ég festi kaup á íbúð í blandaðri byggð og ég er enn á því að borgaryfirvöld hafi á þeim tíma verið of umburðarlynd gagnvart atvinnulífinu. Ég er löngu búin að jafna mig á þessum vondu svörum og vondu stjórnsýslu en nú rifjaðist þetta upp.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)