Fimmtudagur, 19. desember 2024
Franska málið
Ég þarf ekki að hneykslast á franska eiginmanninum sem nauðgaði byrlaðri konunni sinni og hleypti tugum manna upp á hana, hann á sér engar málsbætur enda dæmdur til langrar fangelsisvistar og hinir nauðgararnir líka. Ég get reyndar ímyndað mér einn eða tvo háværa einstaklinga í íslensku bloggsamfélagi sem vorkenna honum og hinum en þeir eru klárlega í minni hluta.
Nei, erindi mitt hingað er að gera orð Maríu Rúnar Bjarnadóttur að mínum. Því miður finn ég ekki orðrétt það sem hún sagði enda góðar líkur á að ég hafi heyrt þau orð í útvarpinu en ekki lesið þau. Hún sagði, og takið nú vel eftir: Þeir sem tala hæst um að lækka skatta ættu að beita sér gegn ofbeldi, m.a. heimilisofbeldi. Þar er gríðarlegur kostnaður. Ekki aðeins erum við að tala um hið sjálfsagða, sársauka, vonleysi, atvinnumissi þess sem fyrir ofbeldinu verður og allar þær hugrænu afleiðingar, heldur einnig peningalegan skaða. Hugsið ykkur þetta franska mál sem hefur tekið langan tíma í kerfinu, fjöldann allan af yfirheyrslum, bæði hjá lögreglu og dómstólunum, tíma lögfræðinganna sem er greiddur af ríkinu.
Ég hef lesið nógu marga dóma um dagana til að vita að bætur sem fórnarlömbum eru dæmdar (og undir hælinn lagt hvort ofbeldismaðurinn er borgunarmaður fyrir) eru langtum lægri en þóknanir lögmannanna. Ég er ekkki að segja að þær séu óhóflegar miðað við vinnuframlagið en, guð minn góður, hugsið ykkur þá aftur vinnuna og tímann sem fer í að finna ofbeldismönnunum (já, og þeim sem eru skárri en verri) málsbætur.
Þannig að ég endurtek: Þeir sem tala hæst um að lækka skatta (sem ég er ekki á móti) ættu að beita sér af hörku gegn ofbeldi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)