Sunnudagur, 22. desember 2024
48 dagar
Mér finnst Vísir hafa brennt af í dauðafæri til að upplýsa lesendur. Ég hlustaði á Bylgjuna í morgun og heyrði Kristján Kristjánsson og Ingu Sæland vera með skæting hvort við annað. Mig grunar að þau hafi ekki verið að tala um nákvæmlega sama hlutinn, en deilan snýst um fjölda daga sem menn mega vera við strandveiðar.
Hún segist hafa rembst eins og rjúpan við staurinn við að fjölga dögunum upp í 48.
Hann segir að dagarnir séu 48 nú þegar.
Úr þessu var ekki skorið í þættinum. Vísir staðreyndagátaði ekki þegar hann skrifaði fréttina.
Ég leitaði í lögum um stjórn fiskveiða og fann 6. gr. a:
Á hverju fiskveiðiári er ráðherra heimilt að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski skv. 5. mgr. 8. gr. sem nýtt skal til veiða með handfærum á tímabilinu frá 1. maí til 31. ágúst samkvæmt sérstökum leyfum Fiskistofu.
Þarna er fjögurra mánaða tímabil undir og ég er engu nær. Mig grunar nefnilega að sjómenn og aðrir kunnugir noti eitthvert orðalag sem ég hef ekki á hraðbergi þannig að ég veit ekki hvort annað hafði rétt fyrir sér og hitt ekki eða hvort bæði höfðu rangt fyrir sér.
Veist þú í hversu marga daga menn mega vera á handfæraveiðum við strendur Íslands? Mögulega er spurningin röng og ég ætti frekar að tala um strandveiðar, krókaaflamark eða sóknarmark.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)