Miðvikudagur, 4. desember 2024
Útstrikanir og uppstrikanir
Nú er búið að birta listann yfir þá þingmenn sem fengu flestar útstrikanir en hvar er fréttin um þá kjósendur sem færðu Dag B. upp fyrir Kristrúnu hjá Samfylkingunni í Reykjavík norður?
Í óspurðum fréttum skal ég svo segja ykkur að ég vil borgarlínu og þéttingu byggðar. Ég vil fleiri hjólastíga og betri meðferð skattfjár.
Ég vil mannsæmandi laun handa öllum og ég vil að öryrkjum verði gert kleift að vinna eins og þrek þeirra býður.
Ég vil ekki selja gullmolana okkar fyrir slikk.
Ég vil ekki offeita (e. obese) banka sem hækka vexti á útlánum þegar Seðlabankinn lækkar stýrivexti.
Ég vil rafmagn og þess vegna vil ég virkja en ég vil ekki virkja fram í rauðan dauðann til að geta selt stórfyrirtækjum rafmagn á spottprís.
Ég vil að stórútgerðir borgi hærra verð fyrir aflann.
Ef ég væri í pólitík hefði ég lagt mesta áherslu á húsnæðismál og samgöngur vegna þess að ég held að léleg geðheilsa og að sumu leyti líkamleg heilsa myndi skána ef fólk færi ekki stressað að sofa og stressað á fætur. Ég er sjálf vel haldin og get þess vegna leyft mér að hafa áhyggjur af hnatthlýnun, ofsafengnum veðrabrigðum, sökkvandi eyjum og öðru sem fólki finnst ekki tengjast efnahag. En loftslag og listir gera það samt.
Og hvað skyldi ég þá hafa kosið? Ég skipti nefnilega um skoðun kl. 15 á laugardaginn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)