Guð - eða ekki

Á Facebook fylgi ég einhverjum dúdda sem kallar sig God og gerir stólpagrín að trú og guði. Flestir fylgjendur hans, a.m.k. þau sem tjá sig, virðast vera bandarískt fólk og það er líka ýmist kaldhæðið eða bara meinfyndið.

Í kvöld spurði hann hvað væri til á sérhverju bandarísku heimili. Sumir drógu í efa að allir hefðu yfirleitt þak yfir höfuðið og margir sögðu, með grátbólgnu tjákni, að byssa væri á öllum bandarískum heimilum. Einn sagði að bragði: 32 Tupperware-ílát og níu lok á þau. Margir tengja augljóslega við þetta miðað við viðbrögðin sem hann fær.

Sumir tala um macaroni (and?) cheese sem er hálfgerður þjóðarréttur (eins og pylsa kannski hér) og ein talar um útrunna baunadós aftast í búrskápnum. Einn talar um sterkt límband (duct tape) og annar um fullt box af alls konar snúrum sem passa ekki lengur við neitt.

Nú eru bara þrjú korter síðan færslan birtist þannig að listinn á eftir að lengjast, en mér finnst þetta litla innlit næstum daglega segja mér heilmikið um húmorinn hjá hinum almenna Bandaríkjamanni. Og þarna ætlar enginn að kjósa Trump ...


Bloggfærslur 5. september 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband