9. nóvember

Á þremur kvöldum las ég bók sem ég var ekki viss um að höfðaði til mín. Ástarsögur þurfa ekki að vera væmnar og tilgerðarlegar þótt ég hafi fyrir löngu lesið nokkrar af þeim toga, þær geta verið merkilegar þroskasögur, en ég hef samt varann á mér þegar þær eru auglýstar sem ástarsögur. Í 9. nóvember er um að ræða vinskap sem hefst á stórundarlegan en engu að síður sannfærandi hátt þegar strákur í næsta bás á matsölustað ákveður að koma til hjálpar stelpu sem skattyrðist við pabba sinn.

Og af stað fer atburðarás sem snýst öll um þessa dagsetningu, 9. nóvember. Daginn eftir að ég byrjaði á bókinni heyrði ég fréttaskýringaþáttinn Þetta helst sem fjallaði um aðra bók eftir sama höfund, Colleen Hoover. Sú umfjöllun styrkti mig frekar en ekki í að halda áfram en strangt til tekið fannst mér byrjunin ögn skrýtin af því að strákurinn og stelpan voru bæði 18 ára og látið var að því liggja að þau ættu bæði þá þegar atvinnuferil, hún sem leikkona og hann sem rithöfundur. Ég trúi ekki að menningarmunurinn sé svo mikill að 18 ára stelpa sem hefur þurft að hætta að leika í sápuóperu 16 ára sé álitin taka niður fyrir sig vegna þess að hún afli tekna með hjóðbókalestri.

Mér finnst þetta alveg galli á ágætri bók, það að láta eins og svona ungt fólk sé búið að koma sér fyrir á atvinnuhillu fyrir lífstíð, en þetta er tvímælalaust helsti galli bókarinnar að mínu mati.

Og þessi Colleen er búin að skrifa margar aðrar bækur sem ég iða í skinninu eftir að lesa.


Bloggfærslur 11. janúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband