Varnarsigur

Ég horfi á landsleiki í handbolta af áfergju og ástríðu en samt án tilfinninga. Ég man þegar Ísland tapaði fyrir Suður-Kóreu 25. febrúar 1986. Menn voru harmi slegnir, miður sín og ábyggilega sumir skömmustulegir. Væntingarnar voru langtum meiri, á pappírunum var Ísland með betra lið og Kóreumennirnir voru smávaxnir á móti hávöxnum Íslendingunum. Ég varð ekki hissa og ég var alls ekki sár. Mér finnst eðlilegt í íþróttum að gera harkaleg mistök.

Ég hef sem sagt gaman af að horfa á handbolta á stórum mótum en kippi mér ekkert upp við slakt gengi. Í vinnunni er reyndar spápottur og þar spáði ég Íslandi 10. sæti og við vorum flest á þeim slóðum. Það að vinna silfur á Ólympíuleikunum í Beijing 2008 er auðvitað stórkostlega ánægjulegt en 17 árum síðar er það ekki viðmiðið.

Já, íslenska liðið lék illa í gær eftir fjóra sigurleiki í fyrstu fjórum leikjum mótsins, en keppinauturinn var lið á heimavelli með 13.500 gólandi áhorfendur á móti háværum 1.500 Íslendingum. Liðið hefði mátt tapa með þremur mörkum ef það ynni síðan Argentínu á morgun, sunnudag, og þá hefðum við verið örugg inn í átta liða úrslitin. Við töpuðum með sex mörkum en eftir fyrri hálfleikinn var ég farin að halda að við myndum tapa með tólf mörkum.

Þess vegna segi ég og skrifa: Varnarsigur!

Lesendum sem vilja skilja þetta sem tilvísun í alþingiskosningaúrslitin í haust er frjálst að gera það ...


Bloggfærslur 25. janúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband