Fimmtudagur, 2. október 2025
Heimur án bóka, bíómynda, myndlistar, tónlistar, hönnunar
Ég er nýbúin að sjá Eldana í bíó. Ég er að lesa Sextíu kíló af sólskini. Ég sit í stól og þegar ég fer til útlanda nota ég ferðtatösku, já, fyrir utan flugvélina. Ég drekk kaffið mitt úr bolla og við drekkum búbblur úr fagurlegum glösum á fæti. Á veggnum sé ég ljóslistaverk af ketti.
Þið vitið, við getum endalaust talið upp hluti og hugmyndir sem eru sköpuð af skapandi fólki. Stundum mistekst ætlunarverkið en það er mikilvægt að fólk missi ekki móðinn. Í sumum löndum er fólk sem hefur orðið gjaldþrota álitið fólk með reynslu sem nýtist í næsta fyrirtækjarekstri (þá er ég augljóslega ekki að tala um kennitöluflakk).
Mér finnst sannleikurinn svo augljós að ég á erfitt með að koma honum í orð. Umræðan hjá siðfræðingnum í Hádegismóum hefur gengið svo fram af mér að ég skil ekki að nokkur heilvita manneskja taki undir með honum, honum sem sjálfur er hluti af gríðarlegum taprekstri sem er hannaður til að hafa áhrif á umræðuna.
Dæs.
Nei, listamenn auðga lífið hjá okkur. Við áttum okkur kannski ekki vel á því fyrr en listin hverfur. Slökkvið á útvarpinu. Slökkvið á sjónvarpinu. Lokið bókunum. Lokið leikhúsum og veitingastöðum. Takið ykkur kamba í hönd og setjist á rúmstokkinn með eitt kertaljós. Nei, við viljum ekki bakka um hundrað ár.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)