Laugardagur, 1. febrúar 2025
It Ends With Us eftir Colleen Hoover
Ég er núna búin með tvær sögur eftir Colleen Hoover, 9. nóvember sem var alveg mögnuð bók og svo hina átakanlegu Þessu lýkur hjá okkur (þýtt sem: Þessu lýkur hér). Ég grét svo mikið yfir seinni partinum af því að hún er um fólk sem beitir ofbeldi og verður fyrir ofbeldi.
Ég hef sjálf ekki verið lamin og ekki niðurlægð en ég hef horft upp á þess háttar og ég veit að það er svo stutt á milli þess að allt sé í himnalagi og að allt sé ómögulegt. Það er hægt að elska einhvern 80% innilega og út af lífinu en hata svo viðkomandi 20%. Það er hægt að horfa í gegnum fingur sér þótt einhver komi illa fram, einu sinni, tvisvar en ef skiptunum fjölgar verður erfiðara að útskýra fyrir sjálfum sér af hverju nú sé komið nóg.
Saga Lily er saga alltof margra kvenna og óháð því hvaða ákvörðun hún tekur er hún ævilangt merkt því hvernig pabbi hennar lúskraði á mömmu hennar og hvernig Ryle kom fram við hana.
Bíómyndin Once Were Warriors (1994) rifjaðist upp fyrir mér meðan ég las, mynd sem ég sá fyrir löngu og aðeins einu sinni, einhverja áhrifamestu mynd sem ég hef nokkru sinni séð. Hún er um hjón í ofbeldissambandi þar sem hann er einmitt svo sjarmerandi og svo allt í einu BÚMM er hann það ekki. Ég myndi svo sannarlega horfa á hana aftur ef ég hnyti um hana en ég hef ekki lagst í ítarleit.
Ég held að ég hafi alltaf skilið af hverju konur festast í ofbeldissamböndum og aldrei dæmt þær fyrir að hlaupa ekki í burtu á 100 km hraða. Ég held að ég hafi aldrei dæmt þær. Ég vildi samt að ég hefði verið duglegri að spyrja: Af hverju beitti ofbeldismaðurinn ofbeldi? Af hverju er ábyrgðinni svona oft varpað á þolandann?
Ryle er með skiljanlega skýringu en ekki afsökun. Ég ætla ekki að tala af mér hér, ég vona að sem fæstir þurfi að upplifa innihald bókarinnar á eigin skinni en bókin er holl lesning. Ég er ekki viss um að þýðingin sé góð, ég gafst upp á Verity eftir sama höfund í íslenskri þýðingu, og mæli með að þau sem geta lesið á ensku sæki sér eintak á bókasafnið.
Þegar ég átti eftir 30 blaðsíður las ég að baráttujaxlinn Ólöf Tara væri látin og þá grét ég hálfu meira yfir bókinni.
Við eigum ekki að líða ofbeldi og fórnarlömbin eiga ekki að axla ábyrgð á ofbeldismönnunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)