Fimmtudagur, 31. júlí 2025
Ágangur ferðaþjónustunnar eða árangur ferðaþjónustunnar?
Heimildin fjallaði um ferðaþjónustuna núna í vikunni. Fyrrverandi framhlið ferðaþjónustunnar fjallaði um umfjöllunina í kjölfarið og var ekki sammála. Hún skrifaði:
Veftímaritið Heimildin (leiðrétting: kemur líka út í blaðaformi) stundar nú stórfurðulega, einhliða og einstaklega rætna herferð gegn íslenskri ferðaþjónustu og fólkinu sem rekur ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi. Þessi atlaga að greininni getur ekki verið tilviljun ein og maður kemst ekki hjá því að velta því fyrir sér hver sé tilgangurinn, undan hvaða rótum hún er runnin og hvaða gagn hún á að gera. Að stuðla að samfélagslegri sátt er allavega ekki það sem rekur Heimildarfólk áfram - heldur þvert á móti að etja ferðaþjónustunni og þjóðinni saman, ala á óvild og öfund, búa til tortryggni og það á einstaklega ósmekklegan hátt. Heimildin velur í umfjöllun sinni dæmi sem eru líkleg til að hreyfa við tilfinningum fólks og reita það til reiði og fjallar oftast um jaðartilfelli - öfgafull tilfelli sem eiga sjaldnast við.
Sem dæmi má þar nefna að þannig hefur Vík í Mýrdal orðið þungamiðja herferðar Heimildinnar gegn ferðaþjónustu.
Þorp sem fyrir örfáum árum var deyjandi byggðarlag, en hefur náð vopnum sínum svo um munar eftir uppgang ferðaþjónustunnar. Skatttekjur Víkur í Mýrdal af ferðaþjónustu á árinu 2024 voru um það bil hálfur milljarður króna. Ég veit fyrir víst að mörg sveitarfélög myndu gjarnan vilja vera í sporum Víkur í Mýrdal. Auðvitað er það ekki nógu safaríkt eða vont fyrir Heimildina, svo það er best að kasta sér á það sem er neikvætt og fá þar á meðal aðfluttan íbúa til að kvarta yfir aðfluttum íbúum. Sem er auðvitað einstaklega pínlegt. Heimildin kallaði sömuleiðis fram hneykslan einhverra þegar hún fjallaði með miklum tilþrifum og myndbirtingum um að ferðamenn hefðu ruðst með látum inn í jarðarför í kirkjunni í Vík í Mýrdal. Það er vissulega ekki hægt að mæla því bót - en auðvitað tiltölulega einfalt að koma í veg fyrir, eins og gert er í kirkjum um allan heim, þegar þær eru lokaðar almennri umferð.
Sama má segja um Hallgrímskirkju. Þar var kirkjuhaldari dreginn upp á dekk og látinn segja frá ferðamönnum, sem ekki fara eftir fyrirmælum og troða sér jafnvel inn í útfarir. Þessi sama kirkja hefur um 300 milljónir í tekjur af ferðamönnum á ári og ætti að vera í lófa lagið að halda fólki í burtu, þegar það á við.
Heimildin hefur leitað fanga víða til að byggja undir vafasaman málflutning sinn. Hún nafgreinir meðal annars fólk sem hefur haslað sér völl í ferðaþjónustu til að gera það tortyggilegt, elur á hugmyndum um gróðastarfsemi sem þekkir engin mörk, launaþjófnaði, illa meðferð á starfsfólki (sérstaklega erlendu auðvitað) og kyrjar fleiri kunnugleg stef, sem ferðaþjónustan í heild þarf að sitja undir ár eftir ár.
Heimildin telur sig örugglega vera að stunda stórkostlega rannsóknarblaðamennsku þegar akkúrat hið gagnstæða á við. Léleg blaðamennska, byggð á upphrópunum, smellabeitum og að því er virðist djúpstæðu hatri á atvinnulífinu.
Hún fær svör bæði með og á móti. Einn sem tekur undir með henni segir:
Hilmar Sigvaldason
Hafnarsjóður Ísafjarðar, Akureyrar, Húsavíkur, Grundarfjarðar, Vestmannaeyja og fleiri staða njóta góðs af komum skemmtiferðaskipa og það eru tekjur upp á einhverja milljarða á ári.
Hafnarsjóður Ísafjarðar, Akureyrar, Húsavíkur, Grundarfjarðar, Vestmannaeyja og fleiri staða njóta góðs af komum skemmtiferðaskipa og það eru tekjur upp á einhverja milljarða á ári.
Ég játa að ég nenni ekki að skrifast á við fólk á annarra manna síðum þannig að ég dreg þetta svar út og velti fyrir mér hvort þessir hafnarsjóðir hafi raunverulega tekjur upp á MILLJARÐA á HVERJU ÁRI. Ég leyfi mér að efast um það og ef ég hefði nennt í umræðuna hefði ég beðið manninn um ársreikninga sjóðanna.
En þá að minni eigin reynslu. Það var einmitt í Vík í Mýrdal sem ég ákvað endanlega að ég gæti ekki lengur unnið í ferðaþjónustunni. Það var sumarið 2012. Ástæðan? Sú að innviðirnir voru sprungnir, öll upplifun neikvæð, fólkið mitt kvartaði undan mannmergð. Við vorum ekki í kirkjunni heldur niðri í þorpinu og fengum enga þjónustu. Síðan eru liðin 13 ár. Hefur staðan batnað? Ég held ekki. Laun leiðsögumanna? Fólk lifði ekki af þeim þá nema fólk væri með beltið í innsta gati. Sumir kunna að halda að það sé mikil uppbót að fá að borða í ferðunum. Já, sumum kann að vera akkur í því en fólk þarf samt að brauðfæða aðra í fjölskyldunni og fjórði diskurinn á borðið gerir ekki gæfumuninn í matarkostnaðinum og ef fólk er í langferðum getur það ekki notað meintan frítíma á kvöldin í neitt með fjölskyldu eða vinum, nú, eða til að vinna aukavinnu ef hún skyldi annars vera í boði.
Ég hélt út í ferðaþjónustunni í 12 sumur af því að mér fannst svo gaman og það þrátt fyrir lúsarlaun. Hæsti, hæsti, hæsti taxti leiðsögumanns núna er 552.874 krónur ef maður reiknar tímavinnukaupið yfir í mánaðarlaun og obbinn af leiðsögumönnum er ekki með fastráðningu og trygga vinnu heldur verkefnaráðningar sem hægt er að segja upp með stuttum fyrirvara.
Ef ferðaþjónustan er sú stað sem fyrrverandi formaður SAF ætlar hana er sú stoð bara undir fáum toppum. Það er mín bjargföst meining eftir rúman áratug í hlutastarfi í stéttinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)