Er til ærleg bensínselja?

Sumir dagar eru manni mótdrægir.

Á gamlaársdag ætlaði ég að kaupa bensín í sjálfsala. Ég renndi 5.000 kr. í slíðrið og ætlaði að bæta um betur en sjálfsalinn fúlsaði við báðum þúsundköllunum sem ég prófaði. Og svo kom hvorki bensín úr dælunni né kvittun úr kassanum.

Ég hringdi í símanúmerið sem gefið var upp og fékk þar að vonum símsvara. Þá gretti ég mig til frekara sannindamerkis framan í myndavélina og keyrði í burtu á blikkandi tanki.

Svo prófaði ég að hringja á laugardagsmorguninn í bensínseljuna en fékk sama símsvarann. Á slaginu kl. 9 á mánudagsmorguninn hringdi ég enn og fékk mjög liðlega konu í símann sem sagði mér að seðlateljarinn (nei, hún notaði eitthvert annað orð) ætti eftir að fara á milli sjálfsalanna og tæma þá en tók niður nafn og númer og ætlaði að láta hringja í mig þegar mál skýrðust.

Í morgun hringdi ég enn og fékk svar annarrar mjög elskulegrar konu sem ætlaði að hnykkja á þessu.

Rétt eftir hádegið hringdi síðan einhver gæðakarl sem var búinn að finna þann bláa og bauð mér að sækja hann til hvaða selju sem ég vildi. Auðvitað hefði mér þótt eðlilegast að leggja hann inn hjá mér eða senda til mín með öðrum hætti - eða gerði ég einhver mistök? - en hann var svo kurteis að ég varð eins og smjörlíki í heitri gluggakistu.

Svo lagði ég lykkju á leið mína til að nálgast herlegheitin en þegar ég kom með mitt hóflega tilkall KANNAÐIST ENGINN VIÐ MÁLIÐ. Lipur afgreiðslustúlka hringdi og fékk engin svör. Ég hringdi í númerið sem hringdi í mig í dag (já, ég persónugeri bara símanúmerið) og Securitas svaraði! Þegar ég hváði svo að undir tók í seljunni útskýrði kurteis karl að sennilega væri flutningur á símanum en samt vissi hann ekkert um það og þaðan af síður um mitt mál.

Fimm dögum eftir að bensínselja fékk minn bláa að láni er málinu enn ekki lokið. Ég er hvorki eins kurteis né þolinmóð og allt það fólk sem ég er búin að tala við út af myndinni af Ragnheiði Jónsdóttur biskupsfrú og nú lofa ég við æru óþolinmæði minnar að einhver hjá Olís þarf að grátbiðja um gott veður á morgun.

Helsti lærdómurinn af sögunni er samt sá að maður á að losa sig við helvítis bílinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Niðurstaðan er vissulega rétt ein og sér en ekki í þessu samhengi. Þar kemur tvennt til.

Í fyrsta lagi er best að eiga viðskipti þar sem einhver afgreiðir mann, annars verður maður mögulega vélaður og lendir í rökræðum við símsvara. Í annan stað er gráupplagt að nota einmitt ekki biskupsfrúna, sé maður að eiga viðskipti með vélar. Vélar skilja segulrendur mun betur en pappírssnepla.

Ég er auðvitað mest að nöldra og taka þátt í þeiri vinsælu íþróttagrein að vita alltaf betur ;o)

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 5.1.2010 kl. 21:37

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Rök mín eru magnþrungin:

Þessi sjálfsali tekur ekki lengur kort nema þau sem gefin eru út af bensínseljunni sjálfri.

Þetta hefur aldrei hent mig áður.

Berglind Steinsdóttir, 5.1.2010 kl. 21:58

3 identicon

Eftir lauslegar tilraunir til að versla ekki við glæpamenn, á Íslandi, komst ég að því að það er hægt, að þrennu undanskyldu. Það er ef maður þarf að díla við:

A) Tryggingafélög

B) Símafyrirtæki

C) Olíufélög

Þessháttar félög eiga einungis svíðingar. Tvær góðar ástæður til að losa sig við bílinn. Jafnvel húsið. Og rafræn samskipti við alheiminn, ef maður vill ganga alla leið.

Sigga Lára (IP-tala skráð) 8.1.2010 kl. 15:03

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

En fannstu sem sagt banka sem þú ert dús við?

Berglind Steinsdóttir, 8.1.2010 kl. 21:34

5 identicon

Ríkið á Sjóvá og Shell - þannig að það ætti að duga í bili. Síminn er á leið úr eigu Bakkabræðra ... æ gess

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 10.1.2010 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband