Feigðarför vörubílstjóra í Tékklandi?

Þýðandi spyr sig: Gæti titillinn í fyrirsögninni selt danskan krimma sem gerist að hluta í Kaupmannahöfn og að hluta í Tékklandi?

Bogens forside

Bein þýðing væri: Hin tékkneska tenging/Hin tékknesku tengsl/Hið tékkneska samhengi sem mér finnst algjör geispvaki (reyndar á dönsku líka).

Ég las bókina samt og hafði gaman af. Dómar um hana eru um flest neikvæðir og einum bókmenntarýninum finnst hún ekki einu sinni jafnast á við hina slæmu Lizu Marklund. Ég læt mér annarra bókmenntapáfa dóma í léttu rúmi liggja og birti hér minn eigin páfadóm:

Den tjekkiske forbindelse er spennandi lesning um Bettinu sem er fréttamaður á sjónvarpsstöð með heldur fánýt verkefni. Ögrandi tækifæri til að leita uppi tíðindi af dauða vörubílstjóra í ferðum til Austur-Evrópu kemur skyndilega undir kvöld einn daginn þegar allir karlarnir eru farnir heim af stöðinni! Og hún bindur fyrir augun (eða þannig) og æðir út í óvissuna þar sem hún heldur síðan til lengst af. Eins og Bond 007 hefði hún átt að steindrepast nokkrum sinnum en ekki er að sjá að hún hruflist til muna, þvert á móti kemur hún ófrísk út úr hildarleiknum! Dramatísku atburðirnir eru ekki skornir við nögl, byssukúlur setja skíðalyftur á hreyfingu, maður villir illa á sér heimildir, bræðraregla segir uú! og maður brennur lifandi. Morðingjarnir reynast ekki morðinginn (ekki ásláttarvilla), greiðvikna stúlkan varð ástfangin, arsenik varð sætt á bragðið - og löggan er gargandi spillt. Bettina er mjög ligeglad í ástarmálum en fær algjört hland fyrir hjartað við tilhugsunina um að vera einstæð móðir. Eins og krimma er siður blandast alls kyns fjölskyldumál inn í starfið og Bettina á mjög alkóhólskemmda blanka mömmu sem lætur kærastann lúberja sig.

Já, sitthvað þarna minnir mig á Hafið ... Maður fær ekki að koma upp til að anda. Og það getur vel verið gaman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband