Uppsettur gremjusvipur

Bjarnfreðarson stóð að sumu leyti undir væntingum.

Handritið er gott, ögn sundurlaust flakk milli tímaskeiða en samt gott og teiknaði Georg vel upp. Það finnst mér. Þroskasaga hans, hægfara breytingar, skyndileg uppgötvun, tilraun til að sættast við fortíðina og síðan lokaákvörðunin gekk lóðbeint ofan í mig. Ólafur Ragnar dansar á línunni með óendanlegt fattleysi sitt, en er réttu megin. Svipinn mætti selja og rétta þannig hlut ýmissa sem hafa farið flatt í útrásinni.

Frasarnir voru að mestu leyti fjarri, og var það vel þótt ég snarfélli fyrir þeim í þáttunum. Já, sæll; eigum við að ræða þetta eitthvað; fimm háskólagráður. Frasalaus mynd.

Leikurinn stóð ekki undir væntingum, nema leikur Jóns Gnarrs og Jóhanns Péturs Sigfússonar, og jú, litli Georg stóð sig frábærlega. Svipbrigðin voru sterk og sá litli texti sem hann flutti var góður. Mörg minni hlutverk voru ekki truflandi en nokkur stærri hlutverk voru það. Jörundur er voða eins, bæði í þáttunum, myndinni og á sviði. Sú sem leikur konuna hans (ég finn engan leikaranöfn þegar ég gúgla) getur ekki sagt sannfærandi: Er kominn dagur? - en kannski er hún þannig í karakter.

En það er blessunin hún Ágústa Erlendsdóttir sem fær falleinkunnina hjá mér. Hún átti og mátti vel vera reið og femínísk með uppeldisaðferðir niðri í dimmasta kjallara en reiði- og umvöndunarsvipurinn var alltaf svo leikinn, eins og hún setti hann upp fyrir myndavélina. Ég trúði aldrei á hann. Og það voru nokkur vonbrigði.

Ragnar Bragason hefur leikstýrt svo frábærri mynd sem Börnum og ef hann er ánægður með Ágústu Evu í Bjarnfreðarsyni greinir okkur á.

Mæli ég með henni? Hmm, ekki nauðsynlegt að sjá í bíó.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband